Handbolti

Þórsarar á Akureyri í sóttkví

Sindri Sverrisson skrifar
Hamri, félagsheimili Þórs á Akureyri, hefur verið lokað fram á mánudag.
Hamri, félagsheimili Þórs á Akureyri, hefur verið lokað fram á mánudag. thorsport.is

Handknattleikslið Þórs á Akureyri hefur verið í sóttkví síðustu daga vegna kórónuveirusmits sem tengist meðlimi liðsins.

Frá þessu er greint á vefmiðlinum handbolti.is þar sem segir að Þorvaldur Sigurðsson, annar þjálfara Þórs, muni ræða málið í útvarpsþættinum Handboltinn okkar á SportFM 102,5.

Þórsarar æfðu síðast á þriðjudaginn og hafa æfingar liðsins verið felldar niður fram yfir helgi. Æfingahúsnæði liðsins hefur verið lokað og það sótthreinsað, samkvæmt handbolti.is. Þó séu allir leikmenn einkennalausir sem stendur og ekki grunur um smit í þeirra röðum.

Þórsarar hafa líkt og önnur landsbyggðarlið getað æft saman síðustu vikur án sömu ströngu skilyrða sem liðin á höfuðborgarsvæðinu þurfa nú að fylgja. Liðin á höfuðborgarsvæðinu byrjuðu að æfa aftur saman í vikunni eftir hálfs mánaðar bann en þurfa til að mynda að fylgja tveggja metra reglu og mega ekki senda bolta á milli manna.

Þórsarar eru nýliðar í Olís-deildinni en hafa unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum. HSÍ áætlar að hefja keppni að nýju í deildinni um miðjan nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×