Viðskipti erlent

Kínversk tæknifyrirtæki gerð útlæg í Svíþjóð

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandaríkjastjórn hefur gengið fast eftir því að Evrópuríki banni búnað frá Huawei við uppbyggingu 5G-farnets. Bretar og Svíar hafa orðið við því.
Bandaríkjastjórn hefur gengið fast eftir því að Evrópuríki banni búnað frá Huawei við uppbyggingu 5G-farnets. Bretar og Svíar hafa orðið við því. Vísir/EPA

Sænsk fjarskiptayfirvöld ætla ekki að leyfa búnað frá kínversku tæknifyrirtækjunum Huawei og ZTE við uppbyggingu á 5G-farneti og vísa í áhættumat hersins og leyniþjónustunnar. Útboð á tíðnisviðum vegna 5G fer fram í Svíþjóð í næsta mánuði.

Bandaríkjastjórn hefur þrýst á Evrópuríki að úthýsa kínverskum tæknifyrirtækjum og heldur því fram að af þeim stafi öryggisógn þar sem þeim beri skylda til að aðstoða kommúnistastjórnina við njósnir. Fyrirtækin hafa hafnað því að þau séu handbendi kínverskra stjórnvalda.

Fjarskiptastofnun Svíþjóðar tilkynnti í dag að fyrirtæki sem taka þátt í tíðnisviðsútboðinu verði að losa sig við búnað frá Huawei og ZTE úr meginkerfum sínum fyrir 1. janúar árið 2025, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Huawei og ZTE hafa enn ekki brugðist við ákvörðuninni. Bretar urðu fyrsta Evrópuþjóðin til þess að banna Huawei-búnað við uppbyggingu 5G-netsins í júlí. Þar þurfa fyrirtæki að losa sig við kínverskan búnað fyrir árið 2027.

Íslensku fjarskiptafyrirtækin Vodafone og Nova sem vinna að uppbyggingu 5G-nets á Íslandi notast bæði við búnað frá Huawei.

Vísir er í eigu Sýnar hf. sem á einnig Vodafone.


Tengdar fréttir

Kommúnistaflokkurinn þjarmar að einkafyrirtækjum

Forsvarsmenn Kommúnistaflokks Kína hafa að undanförnu verið að þjarma að einkafyrirtækjum landsins og krafist hollustu frá þeim. Flokkurinn hefur reynt að herða tökin á fyrirtækjum með því að eignast hluta í þeim eða koma útsendurum fyrir í æðstu stöðum þeirra.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×