GSÍ hefur tilkynnt að golfvellir höfuðborgarsvæðisins muni opna aftur fyrir kylfingum núna á þriðjudag, eða 20. október.
Ákvörðunin kemur í framhaldi af reglugerð heilbrigðisráðherra, á grundvelli tilmæla sóttvarnalæknis, þess efnis að snertilausar íþróttir verði heimilar að nýju á höfuðborgarsvæðinu.
Golfsambandið hvetur kylfinga til að halda áfram að hlúa að einstaklingsbundnum sóttvörnum, forðast hópamyndanir og virða fjarlægðarmörk.
Kylfingar á höfuðborgarsvæðinu ættu því að geta nýtt síðustu vikur golfársins til fulls. Þó er tekið fram að ákvörðun um að opna vellina sé í höndum hvers golfklúbbs fyrir sig.
Tilkynning af vef GSÍ:
Samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðherra sem birt var 18. október verður að nýju hægt að stunda golf á höfuðborgarsvæðinu frá og með 20. október. Um er að ræða golfvelli í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Álftanesi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Mosfellsdal og Kjalarnesi.
Kylfingar er hvattir til þess að sinna persónulegum sóttvörnum í hvívetna, virða tveggja metra fjarlægðarmörk og forðast hópamyndanir á golfvallasvæðunum, s.s. við golfskála og á bílastæðum.
Í ljósi aðstæðna verður leikið samkvæmt þeim leiðbeiningum sem teknar voru upp og kynntar voru kylfingum þann 4. maí síðastliðinn. Í þeim leiðbeiningum fólst að boltaþvottavélar voru fjarlægðar af golfvöllum og hrífur teknar úr glompum. Óheimilt er að fjarlægja flaggstangir úr holum og svampar verða í holubotnum svo unnt sé að fjarlægja boltann án þess að snerta holuna. Einungis sambýlisfólk skal deila golfbíl. Leiðbeiningarnar frá 4. maí fylgja þessari tilkynningu og vísast til þeirra.
Til viðbótar skulu golfklúbbar vanda sig til að koma í veg fyrir smithættu á æfingasvæðum. Sameiginlega snertifleti skal því sótthreinsa eins og best er kostur en í því felst að sótthreinsa æfingabolta, körfur og snertihnappa á boltavélum eftir hverja notkun.
Það skal þó áréttað að opnun golfvalla verður í höndum hvers golfklúbbs fyrir sig og tekur mið af ástandi valla, veðri og starfsmannafjölda klúbbanna.