Skoðun

Til hamingju með daginn, þroska­þjálfar!

Regína Ásvaldsdóttir skrifar

Á velferðarsviði Reykjavíkurborgar erum við rík af mannauði en þar starfa fjölmargar fagstéttir svo sem félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfar, sálfræðingar og síðast en ekki síst þroskaþjálfar, svo fjölmennustu fagstéttirnar séu nefndar. Í dag er einmitt alþjóðadagur þroskaþjálfa og því full ástæða til að minna á hversu mikilvægur hlekkur í velferðarþjónustu þeir eru. Þroskaþjálfar vinna í íbúðakjörnum og sambýlum fyrir fatlað fólk, í hæfingartengdri starfsemi, á skammtímaheimilum fyrir fötluð börn og við ráðgjöf, meðal annars við kennara og foreldra.

Ég hef oft furðað mig á því hvað störf þessarar stéttar eru lítið í opinberri umræðu en hún ber uppi afar mikilvæga velferðarþjónustu.

Á meðan að á Norðurlöndunum tala ráðamenn alltaf um ,,helse og velferd” í sömu andrá og á Bretlandi ,,health and care” þá hefur hingað til ekki verið hefð fyrir því á Íslandi að tala um heilbrigðis- og velferðarmál sem einn samofinn málaflokk, sem hann svo sannarlega er. Heilsufarsvandamálum fylgir gjarnan félagslegur vandi og viðkvæmir hópar sem búa við skerta færni þurfa á báðum þessum kerfum að halda.

Á tímum kórónuveirunnar hefur aldrei sem fyrr reynt á fagfólk sem vinnur við málefni fatlaðs fólks. Þegar hæfingatengd starfsemi var lokuð eða skert í fyrstu bylgju veirunnar í vetur ásamt því að kaffihús, sundlaugar og önnur afþreying var ekki í boði þá kostaði það mikið frumkvæði og seiglu hjá stjórnendum og starfsmönnum á heimilum fyrir fatlað fólk. Auk þess álags sem skapaðist við að íbúar í kjörnunum „misstu“ sín daglegu störf þá þurfti stöðugar endurskipulagningar á vöktum vegna þess hluta starfsmanna sem var í sóttkví auk þeirrar vinnu sem fólst í að viðhalda smitvörnum hjá íbúum.

Í yfirstandandi bylgju kórónuveirunnar hefur ungt fólk gjarnan smitast og það er sá hópur sem vinnur meðal annars hlutastörf í íbúðakjörnum fyrir fatlað fólk og þar að leiðandi hefur þessi bylgja bitnað verulega á starfsemi slíkra heimila. Þegar smit kemur upp hjá íbúa þá reynir sem aldrei fyrr á útsjónarsemi og úthald stjórnenda sem í flestum tilvikum eru þroskaþjálfar.

Og það er einmitt vegna þessa úthalds, seiglu, fagmennsku og helgun í starfi sem okkur hefur tekist vel sem samfélagi að vernda viðkvæma hópa.

Við erum því stolt af þeim fjölmörgu þroskaþjálfum sem starfa á velferðarsviði Reykjavíkurborgar sem hafa staðist með glansi eitt þyngsta álagspróf sem hefur verið lagt á stéttina í tengslum við yfirstandandi kórónuveirufaraldur.

Til hamingju með daginn!

Höfundur er sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×