Handbolti

Guðjón Valur einn sá metnaðarfyllsti sem ég hef kynnst

Sindri Sverrisson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson ræðir við leikmenn sína á æfingu Gummersbach.
Guðjón Valur Sigurðsson ræðir við leikmenn sína á æfingu Gummersbach. mynd/@vflgummersbach

Guðjón Valur Sigurðsson veit nákvæmlega hvað hann vill, hugsar enn eins og leikmaður og er með gríðarlega mikinn metnað sem þjálfari.

Þetta segir Timm Schneider sem Guðjón Valur valdi sem fyrirliða þýska handknattleiksliðsins Gummersbach. Liðið er talið líklegt til að berjast um efstu sætin í 2. deild í vetur.

Guðjón lagði skóna á hilluna í vor eftir glæstan feril og mun nú reyna sig við þjálfun í fyrsta sinn.

„Hann er mjög yfirvegaður. Maður sér það strax að Goggi [Guðjón Valur] veit nákvæmlega hvað hann vill. Það er gott. Hann er frábær týpa og hugsunarhátturinn er enn mjög líkur þeim sem leikmenn hafa. Hann veit hvað það er sem drífur leikmenn áfram og getur aðlagað sig að því. Sumir, sem hafa þjálfað í 15-16 ár, geta þetta ekki lengur,“ sagði Schneider við Handball World.

Hefur kynnst öllum aðstæðum í handbolta

„Mér finnst frábært hvernig hann kemur fram við hvern og einn leikmann og hugmyndir hans um leikinn eru líka góðar. Goggi var einn metnaðarfyllsti leikmaður sem ég hef spilað á móti og hann er eins í þjálfuninni. Þessu þurfa margir að venjast. Við erum með marga unga leikmenn sem eru á fyrsta eða öðru ári sínu sem atvinnumenn og það verður spennandi að sjá hversu fljótir þeir verða að aðlagast og hvernig við vinnum saman að því sem hann hefur í huga,“ sagði Schneider.

Hann ítrekaði að það væri kostur frekar en galli að Guðjón hugsaði enn að miklu leyti líkt og leikmaður:

„Það er klárlega kostur. Goggi hefur kynnst öllum aðstæðum í handbolta og það getur enginn snúið á hann hvað það varðar. Þess vegna veit hann líka nákvæmlega hvernig leikmönnum líður í ákveðnum aðstæðum og hvernig á að takast á við það.“


Tengdar fréttir

Guðjón Valur hættur

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, tilkynnti það á Instagram að hann sé búinn að leggja handboltaskóna á hilluna

Tíu toppar á ferli Guðjóns Vals

Vísir fer yfir tíu af stærstu augnablikunum á ferli Guðjóns Vals Sigurðssonar sem lagði skóna á hilluna í gær.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.