Handbolti

„Læðan eins og við þekkjum hana best“

Sindri Sverrisson skrifar
Atli Már Báruson hafði frekar hægt um sig í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins en lét heldur betur til sín taka gegn Stjörnunni.
Atli Már Báruson hafði frekar hægt um sig í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins en lét heldur betur til sín taka gegn Stjörnunni. VÍSIR/VILHELM

„Þetta var „Læðan“ eins og við þekkjum hana best,“ sagði Theodór Ingi Pálmason, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, um frábæra frammistöðu Atla Más Bárusonar í sigri Hauka á Stjörnunni.

Haukar eru einir með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í Olís-deildinni í handbolta en þeir unnu 32-26 sigur á Stjörnunni um helgina. Atli skoraði þá átta mörk í tíu tilraunum og þar af var ekkert úr víti.

„Hann var kannski ekki búinn að finna sig í fyrstu tveimur leikjunum en hann kom frábær inn í þennan leik og þeir réðu ekkert við hann. Þvílíkur kraftur og sjálfstraust. Hann skoraði, nýtti færin vel og fann félaga sína í dauðafærum. Við höfum séð Atla á síðustu árum – þetta er einn allra besti „áttundi“ maðurinn í deildinni. Fyrsti maður af bekk, sem kemur alltaf með eitthvað og brýtur upp leiki,“ sagði Theodór í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport.

„Yfirburðamaður á vellinum“

Rúnar Sigtryggsson tók í sama streng en innslagið má sjá hér að neðan:

„Mér fannst áberandi að þegar hann fór í aðgerðirnar þá var virkileg hraðabreyting í leiknum. Ekki nóg með það heldur líka kraftur. Maður hafði á tilfinningunni að eina leiðin til að stoppa hann væri að tvöfalda á hann, því það var enginn að fara að standa á móti honum einn gegn einum. Hann vann öll einvígi og spilaði mjög vel úr þessu. Mér fannst hann vera yfirburðamaður á vellinum.“

Klippa: Seinni Bylgjan - Umræða um Atla Má

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×