Handbolti

Ágúst Elí með stórleik í öruggum sigri Kolding

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ágúst Elí á æfingu með íslenska landsliðinu.
Ágúst Elí á æfingu með íslenska landsliðinu. vísir/getty

Markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson fór á kostum er Kolding vann Frederica í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Ekki nóg með að Ágúst Elí hafi lokað markinu þá skoraði hann einnig í 31-22 sigri Kolding.

Leikur kvöldsins var nokkuð jafn framan af og Kolding með eins marks forystu í hálfleik, 13-12. Í þeim síðari var allt annað upp á teningnum og heimamenn fóru á kostum á meðan gestirnir gátu vart rönd við reist. Fór það svo að Kolding vann leikinn með níu marka mun, 31-22, og má með sanni segja að Ágúst Elí hafi spilað stóran þátt í sigri kvöldsins.

Hann gerði sér lítið fyrir og var með 45 prósent markvörslu en hann varði 17 af þeim 37 skotum sem rötuðu á markið er hann stóð þar. Þá skoraði hann einnig eitt mark í leiknum.

Kolding er með sex stig þegar fimm leikjum er lokið. Liðið hefur unnið þrjá leiki og tapað tveimur. Það situr í 5. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×