Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - KA/Þór 21-21 | Landsbyggðarliðin skildu jöfn í Eyjum

Einar Kárason skrifar
Sunna Jónsdóttir.
Sunna Jónsdóttir. vísir/bára

Boltinn fór að skoppa í Olís deild kvenna í dag og tóku heimastúlkur í ÍBV á móti liði KA/Þór í Vestmannaeyjum í dag. Bæði lið hafa styrkt leikmannahópa sína í sumar og ljóst yrði að þetta yrði hörkuleikur.

Hart var tekist á frá fyrstu mínútu og bæði lið vel gíruð í leikinn og fengum við 4 brottvísanir á fyrstu 10 mínútum leiksins. Jafnræði liðanna sást á markaskorun í byrjun leiks en liðin skoruðu til skiptis þangað til eftir stundarfjórðung þegar Eyjakonur náðu 4 marka forustu, 8-4, en gestirnir komu strax til baka og söxuðu á forskotið. Þannig leið fyrri hálfleikurinn og greinilegt að hvorugt liðið myndi stinga af. Þegar hálfleiksbjallan fór af stað leiddu ÍBV með 13 mörkum gegn 11.

Gestirnir frá Akureyri skoruðu fyrsta mark síðari hálfleiksins en ÍBV það næsta, í takt við fyrri hálfleikinn. Þó tóku heimastúlkur yfir og skoruðu næstu 3 mörk og virtust ætla að halda KA/Þór í hæfilegri fjarlægð.

Þegar komið var inn í síðustu 10 mínútur leiksins voru áttu ÍBV 2 mörk á gestina og höfðu haft tökin á leiknum. Tók þá við æsispennandi kafli þar sem Þór/KA spiluðu góða vörn og sókn og náðu að jafna leikinn, með möguleika á því að komast yfir. Það tækifæri fór þó forgörðum og ÍBV skoraði næsta mark. Akureyringar jöfnuðu leikinn 21-21 þegar rúm mínúta var eftir.

Þá var ekki öll vitleysan sögð og við tók kafli sem fer ekki í sögubækurnar, nema fyrir rangar sakir. Þór/KA átti boltann þegar 29 sekúndur voru eftir. Þær misstu boltann klaufalega, einungis til þess að ÍBV gerði slíkt hið sama. Gestirnir náðu boltanum aftur en voru dæmdar brotlegar. ÍBV átti þá aukakast þegar 4 sekúndur voru eftir á klukkunni. Aukakastið var tekið vitlaust og fengu gestirnir því boltann þegar leiktíminn var liðinn. Eina sem var eftir var aukakast utan af velli sem Sólveig Lára Kristjánsdóttir tók en skot hennar fór beint í varnarvegginn, eða réttara sagt í andlit Birnu Berg Haraldsdóttur og fékk Sólveig því beint rautt spjald.

Því fór að leiknum lauk með jafntefli, 21-21, í bráðskemmtilegum leik.

Af hverju endaði leikurinn með jafntefli?

Tvö gríðarlega sterk lið sem bæði áttu sína kafla til að vinna leikinn en í lokin verður jafntefli að teljast sanngjarnt. Vondar lokamínútur hjá ÍBV hleyptu gestunum inn í leikinn eftir að Þór/KA hafði brennt af mörgum dauðafærum.

Hverjar stóðu upp úr?

Sunna Jónsdóttir var frábær í liði ÍBV. Skoraði 4 mörk og fór fyrir sínu liði sem sannur fyrirliði. Þá skoraði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 6 mörk fyrir heimastúlkur úr 12 skotum. Marta Wawrzynkowska átti einnig fínan leik í marki ÍBV með 15 skot varin.

Í liði Þór/KA var Aldís Ásta Heimisdóttir atkvæðamest með 6 mörk úr 7 skotum. Henni næst stóð Rut Jónsdóttir með 5 mörk. Matea Lonac átti, rétt eins og Marta, fínan leik í markinu með 13 skot varin.

Hvað gekk illa?

Færanýting og feilsendingar fóru illa með Þór/KA á meðan Eyjastúlkur þurfa að fara yfir lokamínúturnar í sínum leik og skoða hvað þarf að laga.

Hvað gerist næst?

ÍBV heimsækja HK í Kópavoginn næstkomandi laugardag á meðan Þór/KA fá Stjörnuna í heimsókn sama dag.

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þór var á báðum áttum eftir leik dagsins. ,,Hvað á ég að segja? Kannski sanngjörn úrslit. Við vorum undir mest allan leikinn og vorum að elta en náum að jafna í lokin og eigum möguleika að taka þetta. Ég er svekktur þar sem við erum með mikið af vondum töpuðum boltum sem voru mjög dýrir. Svo klúðrum við svakalega mikið af dauðafærum. Hún (Marta Wawrzynkowska, markmaður ÍBV) er að verja rosalega mikið frá okkur. Ég er svekktur með margt í okkar leik en auðvitað, undir allan leikinn, er ég sáttur að taka stig.”

,,Það eru nokkrir hlutir sem ég vildi hafa betri, aðallega glötuðu boltana og tempóið hjá okkur var ekki nógu gott. Jújú, tvö flott lið. ÍBV náttúrulega með frábært lið og er spáð góðu gengi í vetur, með þrusuleikmenn í sínum röðum þannig að við vissum að þetta yrði erfiður leikur. En, eins og ég segi, tilfinningin er skrýtin eftir leik. Ég vildi hafa gert meira, farið betur upp í hraðaupphlaupin í seinni bylgjunni. Vondir glataðir boltar, sem við höfum ekki verið að gera í undirbúningnum. Svo eins og ég segi, dauðafærin. Þetta er svekkjandi, ég hefði viljað eiga betri frammistöðu í dag.”

Þrátt fyrir svekkelsi hlýtur Andri að vera sáttur við sínar stelpur fyrir frammistöðuna undir lokin. ,,Það er alveg hárrétt hjá þér. Það er hrós á stelpurnar mínar. Þær gáfust aldrei upp og komu sterkar til baka síðustu 5 mínúturnar að jafna leikinn, og við fengum sénsinn á því að taka þetta sem hefði verið geggjað, en við erum að bæta okkur og verðum tilbúnar í næsta leik,” sagði Andri Snær að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.