Handbolti

Sportpakkinn: „Sárt og mikil spæling innan hópsins“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þórey Rósa skilur ákvörðun HSÍ en segir leikmenn Fram samt sem áður svekkta.
Þórey Rósa skilur ákvörðun HSÍ en segir leikmenn Fram samt sem áður svekkta. Vísir/Ernir

Fram átti að mæta Stjörnunni í Olís deild kvenna á föstudag þar sem liðið hefði tryggt sér deildarmeistaratitilinn. Þórey Rósa Stefánsdóttir, leikmaður Fram, segir leikmenn liðsins skilja ákvörðun HSÍ en þær hafi þó verið ansi svekktar að fá ekki að spila leikinn.

„Þetta var mjög sárt og mikil spæling innan hópsins. Ætluðum að tryggja okkur deildarmeistaratitilinn sem við höfum aldrei unnið.Maður skilur þetta en við vorum mjög svekktar,“ sagði Þórey Rósa í viðtali við Svövu Grétarsdóttur í Sportpakkanum á Stöð 2 á föstudagskvöld.

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.

„Ég gat horft á Domino´s deildina og Körfuboltakvöld, mér fannst það gera þetta enn súrara að það hafi ekki verið spilað hjá okkur,“ sagði Þórey Rósa einnig en Körfuknattleikssamband Íslands frestaði ekki leikjum í efstu deild um helgina.

Ljóst er að deildin er að fara í allavega fjögurra vikna frí en samkomubannið gæti verið enn lengra. Þórey segir að mikilvægt sé að reyna halda í úrslitakeppnina, hvenær sem hún yrði, þar sem leikmenn eru búnir að vera undirbúa sig undir það.

„Ég vona að við náum að einhverju leyti að æfa í þessari pásu og deildin, og úrslitakeppnin, verði spiluð eftir þetta,“ sagði Þórey að lokum um það hvort leikmenn væru tilbúnir í að fara spila eftir allt að mánuð í frí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×