Enski boltinn

Ekkert lið grætt jafnmikið á VAR og Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það eru engar sannanir fyrri því að Sir Alex Ferguson hafi verið í heimsókn í VAR-herberginu.
Það eru engar sannanir fyrri því að Sir Alex Ferguson hafi verið í heimsókn í VAR-herberginu. Getty/Simon Stacpoole

Varsjáin hefur hjálpað Manchester United mest af öllum liðum ensku úrvalsdeildarinnar og aðeins einu sinni hefur VAR dæmt á móti lærisveinum Ole Gunnars Solskjær.

Varsjáin hefur verið í sviðsljósinu á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni og það koma upp umdeild mál í hverri viku. Nú síðast dæmdi hún íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson rangstæðan í mögulegu sigurmarki Everton á móti Manchester United.

Manchester United menn sluppu þar með skrekkinn og það var alls ekki í fyrsta sinn á þessu tímabili. Þegar betur er að gáð þá kemur í ljós að VAR hefur nær eingöngu dæmt með Manchester United í þeim tilfellum sem hafa verið tekin fyrir í leikjum Manchester United á leiktíðinni.



ESPN tók saman tölfræði yfir það hvenær VAR hefur dæmt með og síðan á móti félögum í leikjum þeirra í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Niðurstöðurnar eru vissulega svolítið sláandi. VAR hefur tekið tíu atvik fyrir í leikjum Manchester United og níu sinnum hafa United menn grætt á því. Manchester United er því +8 í VAR sem er betra en hjá öllum öðrum liðum ensku úrvalsdeildarinnar.



Fyrsta VAR-atvikið á tímabilinu féll ekki með Manchester United en það var í september þegar hafði verið dæmd rangstaða á Pierre-Emerick Aubameyang en Varsjáin dæmdi síðan markið gilt. Síðan þá hefur United grætt á VAR í átta tilfellum í röð þar á meðal í leiknum á móti Liverpool þegar mark var dæmt af Sadio Mane.

Brighton kemur næst með plús sjö og svo Crystal Palace með plús fimm í VAR-dómum. Nýliðar Sheffield United eru neðstir því þeir eru í mínus sex.

Þeir sem hafa haldið því fram að Liverpool sé að græða svo mikið á Varsjánni hafa ekki alveg rétt fyrir sér. Liverpool er aðeins í plús einum alveg eins og Manchester City, Tottenham Hotspur og Leicester City.



VAR-dómar í ensku úrvalsdeildinni 2019-20:

Manchester United +8

Brighton +7

Crystal Palace +5

Burnley +4

Southampton +3

Leicester, Liverpool, Manchester City, Newcastle, Tottenham +1

Bournemouth 0

Watford -1

Arsenal, Everton -2

Aston Villa -3

Chelsea, West Ham -4

Norwich, Wolves -5

Sheffield United -6




Fleiri fréttir

Sjá meira


×