Körfubolti

Brynjar Þór afboðar sig í stórleikinn vegna kórónuveirunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson í leik með KR.
Brynjar Þór Björnsson í leik með KR. Vísir/Vilhelm

Brynjar Þór Björnsson, lykilmaður KR og fyrrum fyrirliði liðsins ætlar ekki að mæta í stórleik KR og Stjörnunnar í Domino´s deild karla í körfubolta. Ástæðan er útbreiðsla kórónuveirunnar hér á landi.

Brynjar Þór lýsir þessu yfir í yfirlýsingu á fésbókarsíðu sinni í dag. „Ég tel óskynsamlegt að mæta á jafn fjölmennan stað og DHL-Höllin mun vera annað kvöld,“ skrifar Brynjar meðal annars.

„Við erum að glíma við mjög alvarlegan smitsjúkdóm á Íslandi og það er líklega hægt að draga úr útbreiðslu hans með réttum aðgerðum. Með því að forðast hópsamkomur á meðan óvissuástandi ríkir þá gæti það skipt sköpum að bregðast við strax,“ bætir Brynjar við.

KR er í harðri baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppninni og hefur verið með marga leikmenn í meiðslum. Það er því ljóst að liðið má alls ekki við því að vera án Brynjars í þessum leik annað kvöld.

Átta smit til viðbótar hafa greinst á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans það sem af er degi. 34 hér á landi eru nú smitaðir af kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.

Það má sjá alla yfirlýsingu Brynjars Þórs Björnssonar hér fyrir neðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×