Enski boltinn

Liverpool hjartað of stórt til að geta samið við Man Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emre Can fagnar marki með Liverpool.
Emre Can fagnar marki með Liverpool. Getty/Robbie Jay Barratt
Þýski knattspyrnumaðurinn Emre Can gat samið við Manchester United í janúar en gerði það ekki og fór frekar til Borussia Dortmund. Nú hefur hann sagt ástæðuna fyrir því að hann hafnaði tilboði United.

Emre Can er nú 26 ára gamall en hann lék með Liverpool á árunum 2014 til 2018. Can fór frá Liverpool til Juventus en í haust kom fljótlega í ljós að hann væri ekki inn í myndinni hjá ítalska knattspyrnustjóranum Maurizio Sarri.

Það var því orðið ljóst í janúar að Emre Can væri á förum frá Juventus og mörg lið höfðu áhuga á að semja við hann. Stór hluti þeirra spilar í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann skapaði sér nafn með Liverpool.





Tottenham og Arsenal voru meðal þeirra liða sem vildu fá Emre Can en hann sjálfur hefur nú sagt frá því að Manchester United vildi líka fá hann til sín.

Emre Can ákvað hins vegar að fara til þýska liðsins Borussia Dortmund í staðinn. Hann kom í fyrstu á láni en Dortmund hefur nú keypt hann frá Juventus.

„Ég vildi fara til félags þar sem ég get skilað mikilvægu hlutverki og þar sem menn þurfa á mér að halda. Þannig er þetta hjá Dortmund. Borussia hentar mér vel og öfugt,“ sagði Emre Can í viðtali við þýska blaðið Kicker.





„Mér stóðu til boða þrjú tilboð frá enskum félögum þar meðal eitt frá Manchester United. Ég hugsaði hins vegar ekki um það í eina sekúndu vegna fortíðar minnar hjá Liverpool,“ sagði Can og Liverpool hjartað er enn til staðar hjá honum.

Emre Can hefur stimplað sig vel inn hjá Borussia Dortmund, byrjað síðustu fimm leiki og fjórir þeirra hafa unnist.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×