Handbolti

Formaður hkd. Stjörnunnar: Nú er boltinn hjá bænum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr leik hjá Stjörnunni í Mýrinni. Liðið vill komast þaðan og yfir í Ásgarð.
Úr leik hjá Stjörnunni í Mýrinni. Liðið vill komast þaðan og yfir í Ásgarð. vísir/bára

Það voru spilaðir úrvalsdeildarleikir í handbolta í Ásgarði um síðustu helgi. Þeir fyrstu í um fimmtán ár fyrir utan einn leik árið 2018. Ánægja er hjá handknattleiksdeild Stjörnunnar hvernig til tókst.

„Þetta gekk vonum framar hjá okkur. Þetta var ákveðin tilraun til að sjá hvort það væri enn hægt að spila handbolta þarna miðað við aðstæður í dag. Það sýndi sig að þetta er hægt og nú er boltinn hjá bænum,“ segir Pétur Bjarnason, formaður handknattleiksdeildar Stjörnunnar, hæstánægður með tilraunina sem og með sigrana tvo í leikjunum.

„Fyrirliðar liðanna okkar hafa sent bæjarstjórninni bréf og lýst yfir ánægju sína með að spila í þessu húsi. Þetta gekk vel og var mjög jákvætt.“

Ásgarði hefur verið breytt í körfuboltahús. Klukkan í húsinu er fyrir körfubolta og svo er búið að kaupa inn stúkur fyrir körfuboltann og mála völlinn fyrir körfubolta. Það þarf því að breyta ýmsu ef handboltinn ætlar að spila þarna næsta vetur en það er hægt segir formaðurinn.

„Við erum búnir að mæla þetta og við þurfum að hliðra vellinum um tvo metra. Þá getum við dregið stóru stúkuna alveg út og náum einni röð hinum megin,“ segir Pétur en handknattleiksdeildin hefur ekki farið fram á að spila aftur í Ásgarði í vetur.

„Við trúum því að hægt sé að finna lausn í sátt og samlyndi í þessum málum öllum til heilla. Nú bíðum við eftur svörum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×