Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 20-29 | Valskonur rúlluðu yfir Hauka

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Lovísa Thompson.
Lovísa Thompson. Vísir/Bára

Valur vann í kvöld stórsigur á Haukum í Olís deild kvenna, 29-29. Leikurinn fór fram á Ásvöllum en liðin eru búin mætast tvisvar áður á tímabilinu. Valskonur unnu báða hina leikina stórt svo úrslitin komu kannski ekki mörgum á óvart.  

Haukar héldu aðeins í við Val í fyrri hálfleik en uppsettur sóknarleikur Vals var smá óstöðugur. Valskonar voru samt yfir 14-9 í hálfleik en þær skoruðu 7 mörk úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik voru Valskonur aftur á móti fljótar að koma sér í mikla forystu og þær gerðu útaf við leikinn snemma í seinni hálfleik.  

Af hverju vann Valur?

Valsliðið er bara töluvert betra en Haukar í dag í öllum þáttum leiksins. 

Hverjar stóðu upp úr?

Íris Björk Símonardóttir var maður leiksins í kvöld en hún var frábær bæði í að verja skot og að byrja hraðaupphlaup. Lovísa Thompson hélt uppi sóknarleiknum en hún var með 7 mörk og 5 stoðsendingar.

Hornamenn Vals fá líka hrós fyrir að vera fljótar upp en þær skoruðu samtals 12 mörk í leiknum, þar af 8 úr hraðaupphlaupum. 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Hauka var ekki upp á marga fiska í kvöld. Þær áttu nokkra stutta kafla þar sem þær náðu að láta boltann fljóta og finna góð skot en þetta var að mestu leyti smá tilviljanakennt og þær áttu erfitt með að brjóta niður vörn Íslandsmeistarana. 

Hvað gerist næst?

Valur mætir Fram í næstu tveimur leikjum sínum. Fyrst í deildinni og síðan í undanúrslitaleiknum í bikarnum. Haukar fá KA/Þór í heimsókn næstu helgi í mikilvægum leik um sæti í úrslitakeppninni.

Lovísa: Fram er besta lið landsins

„Já ég er bara sátt þetta var nokkuð ágætt hjá okkur í dag,” sagði Lovísa Thompson leikmaður Vals eftir leik kvöldsins. 

Uppsetti sóknarleikur Vals í fyrri hálfleik var ekkert stórkostlegur en þær spiluðu sig vel inn í leikinn í seinni hálfleik.

„Ég er smá sammála því að við vorum í smá vandræðum með uppsetta sóknarleikinn í fyrri hálfleik. Nú höfum við góða viku til að slípa okkur saman. Þetta var smá brösulegt í dag en þetta tókst og ég er bara ánægð með það.” 

Hraðaupphlaupin voru aftur á móti mörg en Íris Björk var að finna hornamennina á fullri ferð upp völlinn. Lovísa var mjög sátt með þetta eins og við mátti búast. 

„Við erum ekki búin að fá mörg hraðaupphlaup í leikjum undanfarið svo það var kærkomið hvað þau voru mörg í dag.” 

Næsti leikur Vals í deildinni er á móti toppliði Fram en Valur þarf að vinna þann leik ef þær ætla sér að verða Íslandsmeistarar. Það er mikil spenna fyrir þeim leik eins og mátti búast við. 

„Já algörlega það er mikil spenna fyrir þeim leik. Það verður gaman að bera sig saman við besta lið landsins í dag. Þetta verður bara hörku leikur og það er skemmtilegur tími framundan.” 

Heyrði ég þetta rétt varstu að kalla Fram besta lið landsins? 

„Eins og staðan er í dag eru þær búnar að vinna 11 leiki í röð. Þær eru búnar að standa sig svo sjúklega vel nú er það bara okkar að sýna að við getum eitthvað staðið í þeim.” 

Íris Björk Símonardóttir kom tilbaka úr meiðslum í kvöld eftir að missa af nokkrum leikjum. Hún var með sín venjulegu rúmlega 55% og Lovísa kunni vel við að hafa hana á bakvið sig.

„Íris er náttúrulega lang best þannig að það er ógeðslega gaman að spila með góðum markmanni.” 

Árni Stefán: Þriðja skiptið á tímabilinu þar sem þær fara illa með okkur

„Það var helst sóknarleikurinn í dag. Í fyrri hálfleik fengum við bara 7 mörk á okkur úr uppstilltum varnarleik og 7 mörk úr hraðaupphlaupum. Af þessum 7 úr hraðaupphlaupum voru 5 eða 6 eftir slök skot eða tapaða bolta. Sóknarleikurinn kostaði okkur þetta aðallega og svo misstum við aðeins móðinn þarna í seinni hálfleik. Það er eitthvað sem hefur einkennt okkur í allan vetur því miður,” sagði Árni Stefán Guðjónsson þjálfari Hauka eftir leik aðspurður hvað hafi farið úrskeiðis í leiknum. 

Valskonur byggðu forskot sitt í leiknum fyrst og fremst á hraðaupphlaupum. Eins og Árni kom inná skoruðu þær 7 af 14 mörkum sínum í fyrri hálfleik úr hraðaupphlaupum. Þær voru bæði hægar tilbaka og klaufalegar sóknarlega að setja sig í slæmar aðstæður.

„Við vorum heldur betur hægar tilbaka. Það er náttúrulega erfitt að hlaupa tilbaka þegar skotin eru að koma úr litlum undirbúningi. Við lögðum upp með það í hálfleik að þegar hendin kemur upp að skotin séu með einhverjum undirbúningi svo leikmenn séu klárir að hlaupa tilbaka. Ég var mjög ánægður með varnarleikinn í fyrri hálfleik en sóknarleikurinn var ekki nógu góður.”  

Eftir svona stórt tap er samt alltaf gott að spyrja sig hvort það megi taka eitthvað jákvætt úr leiknum. Í þessu tilfelli er Árni ekki búinn að finna neitt.

„Það er rosalega erfitt að taka eitthvað jákvætt með 9 marka tap á bakinu. Þetta er líka þriðja skiptið á tímabilinu þar sem þær fara illa með okkur. Það er ekki mikið og ef eitthvað er þá á ég eftir að kíkja betur á leikinn.” 

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.