Handbolti

Aron flaug með Barcelona beint í 8-liða úrslit

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Pálmarsson er einu einvígi frá því að komast í Final Four í Köln.
Aron Pálmarsson er einu einvígi frá því að komast í Final Four í Köln. vísir/getty

Aron Pálmarsson var næstmarkahæstur hjá Barcelona þegar liðið tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta í dag.

Aron skoraði fimm mörk í 37-25 útisigri á Celje Lasko í dag og þar með er Barcelona með fjögurra stiga forskot á PSG og Pick Szeged þegar aðeins ein umferð er eftir í A-riðli keppninnar, og því öruggt um efsta sætið. Efsta liðið fer rakleitt í 8-liða úrslit en liðin í 2.-6. sæti komast í 16-liða úrslit.

Aron og félagar spila því ekki aftur leik í Meistaradeildinni fyrr en 25.-26. apríl, en 16-liða úrslitin fara fram í seinni hluta mars.

Félagar Arons úr íslenska landsliðinu voru á ferð í þýsku 1. deildinni í dag. Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk í sætum sigri Bergischer gegn sterku liði Hannover, 28-27, og Viggó Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Wetzlar sem tapaði fyrir Flensburg, 31-28.

Elvar Ásgeirsson var ekki á meðal markaskorara Stuttgart sem vann Göppingen, 29-26.

Kiel er á toppi þýsku deildarinnar með 40 stig, tveimur stigum á undan Flensburg og sex stigum á undan Füchse Berlín og Hannover. Bergischer er í 12. sæti með 19 stig líkt og Stuttgart sem er í 13. sæti, en Wetzlar er í 8. sæti með 25 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×