Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Sel­­foss 29-33 | Meistararnir í stuði

Benedikt Grétarsson skrifar
Alexander Hrafnkelsson sækir boltann í leiknum við Stjörnuna í kvöld.
Alexander Hrafnkelsson sækir boltann í leiknum við Stjörnuna í kvöld. vísir/vilhelm

Íslandmeistarar Selfoss unnu frábæran sigur á Stjörnunni þegar liðin mættust í 19. umferð Olísdeildar karla í handbolta. Lokatölur urðu 29-33 og Selfyssingar líta virkilega vel út í augnablikinu.

Haukur Þrastarson skoraði átta mörk fyrir Selfoss og Magnús Öder skoraði sjö mörk. Leó Snær Pétursson var markahæstur í döpru liði Stjörnunnar með sjö mörk.

Þarna mættust tvö lið sem geta spilað fantagóðan varnarleik og það sást klárlega í fyrri hálfleiknum. Sérstaklega voru það Selfyssingar sem náðu að kæfa allt flæði í sóknarleik Stjörnunnar og í sókninni áttu þeir eitt stykki Hauk Þrastarson.

Alltaf þegar heimamenn virtust vera ná að standa góða vörn, hjó Haukur á hnútinn með marki eða stoðsendingu. Frábær leikmaður, gjörsamlega frábær.

Selfyssingar reyndu að keyra sem mest á Stjörnumenn, sem náðu ekki að skipta almennilega á milli varnar og sóknar. Þetta skilaði Íslandsmeisturunum fjögurra marka forystu að loknum fyrri hálfleik og fátt sem benti til annars en að Selfoss myndi klára þennan leik auðveldlega.

Hafi áhorfendur haldið að heimamenn myndu mæta grimmir til leiks, þá var það mikill misskilningur. Stjörnumönnum gekk vissulega betur að hemja Hauk Þrastarson en þá losnaði um aðra leikmenn og Magnús Öder fór hreinlega á kostum sóknarlega í seinni hálfleik.

Íslandsmeistararnir möluðu Stjörnumenn undir sig og náðu mest sjö marka forskoti. Leikurinn leystist aðeins upp í vitleysu þegar úrslitin voru ráðin en fjögurra marka sigur Selfyssinga var síst of stór og ljóst að meistararnir munu mæta sterkir til leiks í úrslitakeppnina í vor.

Af hverju vann Selfoss?

Varnarleikur Selfyssinga var geggjaður í fyrri hálfleik og þá höfðu þeir eitrað tvíeyki í Hauki og Atla Ævari til að höggva á hnúta sóknarlega. Í seinni hálfleik stigu aðrir leikmenn upp og það var í raun liðsheildin sem skilaði Selfyssingum þessum sigri.

Hverjir stóðu upp úr?

Haukur og Atli Ævar voru mjög erfiðir og ná einstaklega vel saman. Magnús Öder var frábær í seinni hálfleik og Einar Sverrisson er liðinu mikill styrkur. Tandri Már Konráðsson var skárstur heimamanna.

Hvað gekk illa?

Lykilmenn Stjörnunnar voru margir úti á túni. Ólafur Bjarki var slakur, Ari Magnús ragur og meira að segja Ragnar Njálsson var að láta steikja sig maður gegn manni. Stjarnan getur betur og nú er safna liði fyrir bikarhelgina.

Hvað gerist næst?

Nú tekur við örlítið frí fram að „final four“ bikarhelginni 5-7 mars nk. Þar eru Selfyssingar ekki meðal keppenda en Stjörnumenn mæta Aftureldingu í undanúrslitum 5. mars.

 

Grímur Hergeirsson stýrir Selfossi í vetur.Vísir/Sunnlenska

Grímur: Stýrðum leiknum allann tímann

„Ég er gríðarlega ánægður og mér fannst við stjórna leiknum í 60 mínútur,“ sagði kampakátur Grímur Hergeirsson eftir öruggan fjögurra marka sigur Selfoss gegn Stjörnunni. Lokatölur urðu 29-33 og Grímur átti auðvelt með að benda á hvað hafi gengið hvað best hjá hans mönnum.

„Við spilum frábæran varnarleik í ca. 50 mínútur og ég er bara mjög ánægður með strákana. Það er mjög sterkt að taka fjögurra marka sigur á þessum útivelli. Stjarnan er með hörkulið og búnir að vera heitir undanfarið.“

Hvað gladdi þjálfarann mest í þessum leik?

„Ég er ánægðastur með hugarfarið og hvernig við komum inn í leikinn. Varnarleikurinn var frábær í fyrri hálfleik og markvarslan fín. Við vinnum þetta yfirvegað og markvisst og það gleður mig mikið.“

Það voru margir leikmenn Selfyssinga sem stigu upp í kvöld, ekki síst þegar Stjörnumenn reyndu að koma böndum á Hauk Þrastarson, sem var frábær í fyrri hálfleik.

„Þetta er mjög ánægjulegt og þetta hefur einmitt verið að gerast hjá okkur í vetur, að menn stíga upp. Það mun halda áfram og þetta er svo sannarlega gleðiefni fyrir okkur og ég fagna því,“ sagði Grímur sáttur og bætti svo við.

„Við erum búnir að vera að vinna í því að ná góðum takti í liðið fyrir úrslitakeppnina, sérstaklega varnarlega. Svo erum við að vinna í fleiri lausnum sóknarlega en varðandi framhaldið, þá snýst þetta bara alltaf um næsta leik og það er leikurinn gegn Haukum 12. mars sem er okkar næsta verkefni og nú er bara að byggja á þessum góða leik okkar í kvöld,“ sagði Grímur að lokum. 

Rúnar: Mættum miklu betra liði í kvöld

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar þurfti að sætta sig við tap en hann hafði á orði fyrir leik að Stjarnan þyrfti að ná að tengja saman góðar frammistöður. Það tókst svo sannarlega ekki í kvöld.

„Ég hafði það eiginlega á tilfinningunni strax í byrjun að þetta yrði erfitt. Við vorum að fá á okkur mörk akkúrt þar sem við vorum búnir að tala um fyrir leikinn að mætti ekki gerast og sóknarlega vorum við að hlaupa með boltann hingað og þangað í stað þess að láta hann ganga. Þess vegna tók ég leikhlé snemma en því miður gekk þetta ekki upp.“

Lykilmenn Stjörnunnar voru flestir á hælunum. Rúnar er sammála því að menn þurfi að skila meiru en undanskilur sjálfan sig ekki í þeirri gagnrýni.

„Við þurfum að gera það jú. Það tókst ekki í dag en það er ennþá eitthvað eftir af tímabilinu og vonandi læra menn af þessari frammistöðu. Við mættum bara miklu betra liði í kvöld, liði sem mætti miklu meira tilbúið í leikinn.“

„Þeir voru með þrjá frábæra leikmenn fyrir utan og það var alveg sama hver skaut á markið, það var allt inni. Það skipti engu þó að við reyndum að skerma Hauk Þrastarson,  Magnús Öder eða  Einar Sverrisson stigu þá bara upp í staðinn. Það virtist koma okkur á óvart hvað þeir mættu aggressífir og við hörfuðum úr návígum. Þetta var verðskuldaður sigur hjá Selfossi í kvöld,“ viðurkenndi Rúnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira