Skoðun

Meira af verð­myndun auð­linda – er þetta eðli­legt?

Guðmundur Helgi Þórarinsson skrifar

Í grein hér á Vísi fyrir rúmum tveimur vikum fór ég aðeins yfir verðmyndun á sjávarafurðum þar sem ég fór yfir verðmyndun á makríl og kolmuna. Þar ræddi ég meðal annars þann mikla verðmun sem er á makríl á Íslandi og Noregi og einnig þann mikla mun sem er á verði til íslenskra og norskra skipa  þegar kolmunna er landað í íslenskar verksmiður til bræðslu.

En það er fleira sem hefur vakið athygli okkar hjá VM - félagi vélstjóra og málmtæknimanna. Árið 2016 lét fjármála- og efnahagsráðuneytið útbúa fyrir sig skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Í þeim starfshóp áttu sæti meðal annars fólk frá Fjármálaeftirlitinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra.

Samkvæmt skæyrslunni er grunur um að útflutningaverð sjávarafurða sé 8,3% lægra frá Íslandi en innflutningsverð þegar fiskurinn er kominn á leiðarenda erlendis, og því möguleiki á milliverðlagningu. Þessi spurning hefur því legið í loftinu í næstum því fjögur ár en ríkisvaldið virðist ekkert hafa skoðað þetta síðan skýrslan kom út. Það er ótrúlegt að skrifuð er skýrsla sem útilokar ekki þann möguleika að ekki sé verið að gefa upp rétt verð á afla sem veiddur er á Íslandi, og ekkert er gert. Sé þetta sett í tölulegt samhengi þá þýðir 8.3% munur á fiskverði 19,9 milljarða munur á útflutningsverðmæti ef miðað er við útflutningsverð frá 2018.

Í skýrslunni kemur einnig fram að til skamms tíma áttu mörg sjávarútvegsfyrirtæki dótturfyrirtæki á Kýpur sem nýttust þeim í skattalegu tilliti.Telja sumir að þessi dótturfélög íslensku sjávarfyrirtækjanna hafi einnig verið notuð við milliverðlagningu afurðanna. VM, sem stéttarfélag sjómanna, telur sig verða að spyrja hvort að þeir sem fari með íslensku fiskveiðiauðlindina séu að stinga hluta af ágóðanum í eigin vasa?

Það er staðreynd að mörg íslensk útgerðarfyrirtæki eiga sín eigin sölufyrirtæki erlendis, til dæmis í Asíu, Frakklandi, Grikklandi og víðar. Hér er ég ekki að fullyrða að þessi félög séu notuð til milliverðlagningu afurða, en það er mjög skrýtið þegar skýrsluhöfundar á vegum fjármála og efnahagsráðherra varpa fram þessum spurningum, að það sé ekki kannað frekar.

Í mínum huga er það ljóst, þegar fyrirtæki fara með nýttingarrétt yfir auðlind þjóðarinnar þá þarf það að vera krafa númer eitt, tvö og þrjú að þjóðin fái réttlátan arð fyrir auðlindir landsins.     

Höfundur er formaður VM - félags vélstjóra og málmtæknimanna.


Tengdar fréttir

Af verð­myndun auð­linda - er þetta eðli­legt?

Á undanförnum misserum hefur verið mikil umræða um hvaða endurgjald þjóðin eigi að fá fyrir sínar sameiginlegu auðlindir og hefur verðlagning á sjávarafurðum verið mjög áberandi í þeirri umræðu.




Skoðun

Sjá meira


×