Handbolti

Ýmir byrjaði á spennuleik í Þýskalandi | Oddur með 9 mörk

Sindri Sverrisson skrifar
Ýmir Örn Gíslason er mættur í slaginn í Þýskalandi.
Ýmir Örn Gíslason er mættur í slaginn í Þýskalandi. mynd/stöð2sport

Ýmir Örn Gíslason þreytti í kvöld frumraun sína í þýsku 1. deildinni í handbolta. Oddur Gretarsson átti stórleik en það dugði skammt.

Ýmir gekk í raðir Rhein-Neckar Löwen frá Val á dögunum og var í liðinu þegar það gerði 27-27 jafntefli við Wetzlar á útivelli í kvöld. Ýmir skoraði úr eina skoti sínu í leiknum og Alexander Petersson skoraði tvö en Viggó Kristjánsson komst ekki á blað fyrir heimamenn.

Löwen, sem leikur undir stjórn Kristjáns Andréssonar, er í 6. sæti deildarinnar með 29 stig, fjórum stigum fyrir ofan Wetzlar og sjö stigum á eftir toppliði Kiel.

Flensburg er tveimur stigum á eftir Kiel eftir sigur á Nordhorn í kvöld en Kiel á hins vegar leik til góða.

Oddur Gretarsson skoraði úr öllum níu skotum sínum fyrir Balingen, þar af þrjú úr vítum, þegar liðið tapaði 32-27 fyrir Erlangen á útivelli. Balingen er aðeins þremur stigum frá fallsæti en Erlangen komst með sigrinum í örugga fjarlægð frá fallsvæðinu.

Elvar Ásgeirsson var ekki á meðal markaskorara Stuttgart sem vann sterkan sigur gegn Melsungen á útivelli, 26-21. Stuttgart komst þar með upp fyrir Balingen á markatölu en er sömuleiðis þremur stigum frá fallsæti.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði eitt marka Bergischer sem tapaði 28-22 fyrir Göppingen á útivelli. Ragnar Jóhannsson var ekki á meðal markaskorara Bergischer sem er í 13. sæti, fimm stigum frá fallsæti.

Úrslit kvöldsins:
Flensburg - Nordhorn 29-27
Göppingen - Bergischer 28-22
Erlangen - Balingen 32-27
Wetzlar - Rhein-Neckar Löwen 27-27
Melsungen - Stuttgart 21-26Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.