Körfubolti

Ægir og Pavel draga sig út úr íslenska landsliðshópnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson var frábær í bikarúrslitunum um helgina og var kosinn mikilvægasti leikmaðurinn. Hann var borinn á höfuðstól eftir úrslitaleikinn.
Ægir Þór Steinarsson var frábær í bikarúrslitunum um helgina og var kosinn mikilvægasti leikmaðurinn. Hann var borinn á höfuðstól eftir úrslitaleikinn. vísir/daníel

Íslenska körfuboltalandsliðið varð fyrir enn frekara áfalli í gær þegar ljóst var að tveir lykilmenn liðsins færu ekki með liðinu út til Kósóvó.

Íslenska körfuboltalandsliðið er að hefja leik í forkeppni að undankeppni HM 2023 og er nú á leið til Kósóvó í fyrri leikinn í þessum landsliðsglugga sem stendur yfir dagana 17.-24. febrúar.

Pavel Ermolinskij og Ægir Þór Steinarsson gátu ekki ferðast með út í morgun og tekið þátt í fyrri leiknum af persónulegum ástæðum. Enn er möguleiki á að þeir geti spilað seinni leikinn samkvæmt fréttatilkynningu frá Körfuknattleikssambandi Íslands.

Áður var ljóst að atvinnumennirnir Elvar Már Friðriksson, Haukur Helgi Briem Pálsson og Martin Hermannsson gátu ekki verið með og þá er Kristófer Acox enn að ná sér eftir meiðsli og gefur heldur ekki kost á sér.

Íslenska landsliðið mun leika gegn heimamönnum í Kósóvó á fimmtudaginn kemur 20. febrúar og svo heima í Laugardalshöllinni gegn Slóvakíu sunnudaginn 23. febrúar.

Vegna forfalla Pavels og Ægis þá boðaði landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen þá Ólaf Ólafsson úr Grindavík og Ragnar Ágúst Nathanaelsson úr Val inn í liðið.

Íslenska liðið verður því þannig skipað gegn Kósovó:

Nafn · Félag · Landsleikir

Breki Gylfason · Haukar · 6

Gunnar Ólafsson · Stjarnan · 18

Hjálmar Stefánsson · Haukar · 15

Hörður Axel Vilhjálmsson · Keflavík · 82

Kári Jónsson · Haukar · 10

Kristinn Pálsson · Njarðvík · 13

Ólafur Ólafsson · Grindavík · 36

Pétur Rúnar Birgisson · Tindastóll · 9

Ragnar Ágúst Nathanaelsson · 45

Sigtryggur Arnar Björnsson · Grindavík· 8

Tómas Þórður Hilmarsson · Stjarnan · 4

Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza · 37




Fleiri fréttir

Sjá meira


×