Enski boltinn

Help! mynd Bítlanna var í tökum þegar Man. United náði þessu síðast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Goðsagnirnar George Best og Denis Law í leik á þessu tímabili og svo plötuumslagið með Help!
Goðsagnirnar George Best og Denis Law í leik á þessu tímabili og svo plötuumslagið með Help! Samsett/Getty

Það þarf að fara aftur til 13. mars 1965 til að finna síðasta lið Manchester United sem var með fullt hús og hreint mark í báðum leikjum sínum á móti Chelsea.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, myndi kannski óska þess að mæta Chelsea liðinu sem oftast. United vann báða deildarleiki liðanna á tímabilinu og það með markatölunni 6-0.

Manchester United vann 4-0 sigur á Chelsea á Old Trafford í fyrsta leik tímabilsins og fylgdi því síðan eftir með 2-0 sigri á Stamford Bridge í gær.

Ekki nóg með það þá sló Manchester United lið Chelsea einnig út úr enska deildabikarnum í október með 2-1 sigri á Brúnni. Þrír leikir og þrír United sigrar.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem Manchester United vinnur báða deildaleiki sína á móti Chelsea en því hafði United liðið ekki náð síðan tímabilið 1987-88.


Það þarf aftur á móti að fara miklu lengur aftur til finna tímabil þar sem Manchester United vann báða deildarleiki sína á móti Chelsea og hélt marki sínu einnig hreinu eins og á þessu tímabili.

Það gerðist síðast tímabilið 1964-65. Manchester United vann þá fyrri leikinn á Stamford Bridge, 2-0 í september 1964 og svo seinni leikinn 4-0 á Old Trafford í mars 1965. Markvörður United í leikjunum var Írinn Pat Dunne og knattspyrnustjórinn var Sir Matt Busby.

Á þessum tíma var einmitt Help! mynd Bítlanna í tökum en hún var ekki frumsýnd fyrr en um sumarið. „Eight Days A Week“ var vinsælasta lagið og kvikmyndin The Sound of Music var frumsýnd í Bandaríkjunum ellefu dögum áður.

Goðsagnirnar George Best og Denis Law skoruðu í báðum leikjunum en svo var Skotinn David Herd með tvö mörk í stóra sigrinum á Old Trafford. George Best var þarna aðeins átján ára gamall. Manchester United vann ensku deildina þetta vor en Chelsea varð í 3. sæti á eftir Leeds.

Þessi sigur Manchester United vorið 1965 voru mikil tímamót fyrir United því þetta var fyrsti Englandsmeistaratitill félagsins eftir München slysið 1958 þar sem átta leikmenn Manchester United  liðsins fórust.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.