Handbolti

Guðmundur: Ekki tími fyrir neitt volæði

Anton Ingi Leifsson skrifar

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var hundfúll með byrjun íslenska landsliðsins í leiknum í gær en segir að liðið þurfi að safna kröftum fyrir verkefni dagsins.

Ísland mætir Svíþjóð í dag en þetta verður síðasti leikur Íslands í milliriðlinum og þar af leiðandi síðasti leikur liðsins á mótinu.

Henry Birgir Gunnarsson ræddi við Guðmund eftir leikinn í gær gegn Noregi og spurði hann út í Svíaleikinn og hvernig hann myndi ná mönnum upp á tærnar.

„Ég mun ræða byrjunina á leiknum við strákanna en að öðru leyti er ekki tími fyrir neitt volæði. Við þurfum nú að safna kröftum fyrir leikinn gegn Svíum og fara í þennan leik gegn Svíum með allt sem við eigum.“
Einungis sólarhringur er á milli leikja og Guðmundur segir að þjálfararnir séu nú þegar búnir að greina Svíana.

„Við erum búnir að greina þá alveg. Við erum með það á hreinu en tíminn fer bara í það að safna kröftum og leggja fram okkar áætlanir og setja fram ákveðinn sáttmála hvernig við ætlum að fara í þennan leik.“

„Það er það sem ég vil gera fyrir þennan leik svo við séum allir á sömu blaðsíðu þegar leikurinn hefst á morgun.“

Guðmundur vill að menn skilji líf og sál eftir á vellinum í kvöld.

„Ég vil fá allt í þennan leik á morgun (innsk. blm. í kvöld),“ sagði Guðmundur.

Vísir mun, eins og allt mótið, fylgjast vel með leik dagsins og gera honum góð skil.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.