Handbolti

Kristján: Ég er mjög ánægður með þessi þrjú ár

Smári Jökull Jónsson skrifar

Kristján Andrésson þjálfari Svia var að vonum sáttur eftir sigurinn á íslenska liðinu í kvöld. Þetta var hans síðasti leikur sem þjálfari sænska landsliðsins.„Mér fannst við vinna fyrir þessu. Það var góð varnarvinna, við settum pressu á Íslendingana og svo kom góð varsla frá Appelgren,“ sagði Kristján við Henry Birgi Gunnarsson eftir leikinn í Malmö í kvöld.„Við komumst nokkrum mörkum yfir í byrjun. Við leystum varnarleik Íslands vel með háu 3:3 vörnina þeirra. Við fundum lausnir með línumenn og skytturnar og ég er ánægður með leikinn.“Eins og áður segir er var leikurinn sá síðasti sem hann stjórnar hjá sænska liðinu. Hann hefur verið þjálfari liðsins síðan 2016 en tók við Rhein Neckar-Löwen í sumar og hefur þjálfað liðin tvö samhliða.„Mér líður bara vel. Ég er ekki að fara að skoða Sideline eða klippur á morgun, ég ætla bara að taka því rólega. Ég hef verið svolítið mikið í tölvunni að skoða handbolta. Ég sé til hvort ég skoða leikinn um helgina. Ég hlakka til að fara heim til fjölskyldunnar á morgun.“Svíar höfðu forystuna allan tímann í dag og náðu strákarnir okkar aldrei að ógna sænska liðinu að ráði.„Ég var rólegur í dag. Ég vissi að þetta væri síðasti leikurinn og það er auðvitað mjög gaman að vinna þó svo að ég hafi vitað að það skipti í raun engu máli hvernig þetta færi í dag.“„Það er mikilvægt að vinna og sýna góðan karakter. Það er gott fyrir leikmennina sem eru að fara að berjast um að komast á Ólympíuleikana. Ég er búinn að gera mitt besta,“ sagði Kristján og sagðist ánægður með tímann hjá sænska landsliðinu.„Þetta hefur verið mjög góður tími fyrir mig. Ég hef fengið tækifæri til að fara erlendis og sinna mínu starfi, hitt marga góða þjálfara og leikmenn. Þessi tími hefur gert mig að betri manneskju og betri þjálfara. Ég er mjög ánægður með þessi þrjú ár,“ sagði Kristján að lokum.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.