Handbolti

Guðmundur: Höfum fjárfest í framtíðinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Guðmundur Guðmundsson sagði að frammistaða íslenska landsliðsins gegn Svíþjóð í lokaleik þess á EM hafi ekki verið nógu góð. Svíar unnu sjö marka sigur, 25-32.

„Byrjunin á mótinu var stórkostleg og við í fyrstu þremur leikjunum voru fimm hálfleikir af sex frábærir. Ungverjaleikurinn situr í manni. Hann kostaði okkur mjög mikið. Við byrjuðum mjög vel en fórum illa að ráði okkar,“ sagði Guðmundur við Vísi eftir leik.

„Í leiknum gegn Slóveníu gat s.s. allt gerst. Það er erfiður andstæðingur og geysilega reynslumikið lið. Við komum frábærlega til baka á móti Portúgal sem hefur komið liða mest á óvart á mótinu. Leikurinn gegn Norðmönnum var slakur af okkar hálfu. Mér fannst leikmennirnir ætla að gefa allt í þetta í dag en því miður gekk það ekki. Þetta var ekki góður leikur.“

Guðmundur segir að flest hafi gengið á afturfótunum hjá íslenska liðinu í kvöld.

„Níu sinnum hittum við ekki markið, held ég, og töpuðum boltanum níu sinnum. Þetta var ekki gott og auðvitað er ég vonsvikinn með endinn á þessu,“ sagði Guðmundur.

„Það eru ungir leikmenn að stíga sín fyrstu skref með eldri menn sér við hlið. Það vantar meiri stöðugleika. Þetta varð erfiðara eftir því sem leið á mótið og kannski höfðu líkamlegir þættir áhrif á það. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2014 sem við komumst í milliriðil. Líkamlegt ásigkomulag leikmanna þarf að vera gríðarlega gott til að geta haldið þetta út.“

Guðmundur segir að margir leikmenn hafi lagt inn á reynslubankann á EM.

„Þetta var mjög lærdómsríkt. Við höfum fjárfest í framtíðinni og það er mjög jákvætt,“ sagði Guðmundur að lokum.


Tengdar fréttir

Twitter eftir leik: Léttir fyrir Ikea

Ísland tapaði í lokaleik sínum á EM gegn Svíum í kvöld. Svíar höfðu yfirhöndina allan leikinn og lítið um jákvæðni hjá íslensku stuðningsmönnunum á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×