Körfubolti

Fórnar Ólympíuleikunum til að berjast fyrir frelsi manns sem situr í fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maya Moore með Ólympíugullið sitt frá því í Ríó 2016.
Maya Moore með Ólympíugullið sitt frá því í Ríó 2016. Getty/Jesse D. Garrabrant

Bandaríska körfuboltakonan Maya Moore er með þeim bestu í heimi og hefur unnið fjóra meistaratitla í WNBA-deildinni á sínum ferli. Hún er líka klár í að berjast fyrir réttlæti utan vallar.Maya Moore hefur nú tilkynnt það að hún gefi ekki kost á sér í bandaríska körfuboltalandsliðið á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Maya Moore ætti þar nær öruggt sæti enda frábær leikmaður og mikill leiðtogi.Ástæðan er að Maya Moore berst nú fyrir því að maður í fangelsi í Missouri verði látinn laus. Sá heitir Jonathan Irons og er 39 ár gamall.Jonathan Irons fékk 50 ára dóm fyrir innbrot og að ráðast á húsráðanda með byssu. Maya Moore trúir því að hann hafi verið ranglega dæmdur.„Körfubolti er ekki ofarlega í mínum huga,“ sagði Maya Moore í viðtali við New York Times. Hún ætlar ekki aðeins að sleppa Ólympíuleikunum heldur einnig öðru WNBA-tímabilinu sínu í röð.

„Ég hef hvílst og tengst betur fólkinu í kringum mig. Ég hef verið á sama stað og þau eftir öll þessi ár mín á ferðalagi. Svo hef ég getað verið til staðar fyrir Jonathan,“ sagði Maya Moore.Maya Moore er ekkert skyld Jonathan Irons og hitti hann fyrst árið 2017 þegar hún heimsótti fangelsið hans.Maya er samt ekki tilbúin að tilkynna það að skórnir séu komnir upp á hillu en liðin hennar sakna hennar mikið á meðan hennar nýtur ekki við.

Maya Moore er þrítug og hefur unnið fjóra WNBA meistaratitla með Minnesota Lynx, þann síðasta árið 2017. Hún hefur einnig unnið tvö Ólympíugull með bandaríska landsliðinu, orðið tvisvar heimsmeistari og unnið Euroleague með tveimur mismunandi liðum. Hún varð líka tvisvar háskólameistari með UConn áður en hún kom í WNBA-deildina.Á síðasta tímabili sínu með Minnesota Lynx var Maya Moore með 18,0 stig, 5,1 frákast og 2,5 stoðsendingar að meðaltali en mest hefur hún skorað 23,9 stig í leik á einu WNBA-tímabili.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.