Körfubolti

Michael Jordan um Kobe Bryant: Hann var eins og litli bróðir minn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan og Kobe Byrant.
Michael Jordan og Kobe Byrant. Samsett: AP og Getty

Nær allir sem hafa eitthvað með NBA-deildina að gera, fyrr eða síðar, hafa gefið sér tíma til að minnast Kobe Bryant sem lést í þyrluslysi í gær. Michael Jordan, maðurinn sem Kobe Bryant var alltaf borinn saman við, var einn af þeim og hann minntist Kobe með hjartnæmum orðum.

„Ég er í sjokki yfir þessum sorglegu fréttum að dauða Kobe og Giannu. Ég á engin orð til að lýsa sársaukanum sem ég finn. Ég elskaði Kobe og hann var eins og litli bróðir minn,“ sagði í yfirlýsingu frá Michael Jordan.



Michael Jordan var sá besti í heimi þegar Kobe Bryant var að alast upp og allir vildu vera eins og Mike. Kobe Bryant var einn af þeim sem vildi vera eins og Mike og hann komst mjög nálægt því að leika eftir afrek Jordan inn á körfuboltavellinum.

Kobe skoraði á endanum fleiri stig en Michael Jordan og vantaði bara einn titil að vinna sex NBA-titla eins og hann. Michael vann vissulega fleiri einstaklingsverðlaun en Kobe stóðst samt flestan samanburð, svo öflugur leikmaður var hann.

Jordan hélt áfram að minnast Kobe Bryant í yfirlýsingu sinni.

„Hann var ákafur keppnismaður, einn af þeim bestu í sögu íþróttarinnar og skapandi afl. Kobe var einnig stórkostlegur faðir og elskaði fjölskyldu sína innilega. Hann var mjög stoltur af ást dóttur hans á körfuboltaíþróttinni. Ég og Yvette sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Vanessu, Lakers félagsins og körfuboltaáhugafólks út um allan heim,“ skrifaði Michael Jordan.

Hér fyrir neðan má sjá magnað myndband þar sem sést vel hversu líkur leikstíll Kobe Bryant var leikstíll Michael Jordan.



Fleiri stór nöfn hafa líka minnst Kobe Bryant eins og sjá má dæmi um hér fyrir neðan.


















Tengdar fréttir

Íslendingar minnast Kobe

Andlát Kobe Bryant hefur snert við mörgum Íslendingum og ljóst er að þessi magnaði íþróttamaður hefur haft mikil áhrif á íþróttalíf, þá sérstaklega körfubolta, hér á landi undanfarin ár.

Kobe Bryant minnst með aðdáun og sorg í hjarta

Skelfilegar fréttir af andláti Kobe Bryant, eins merkasta íþróttamanns sögunnar, hefur sett fólk algjörlega út af sporinu nú í kvöld. Fólk hvaðan að úr heiminum minnist stórstjörnunnar á samfélagsmiðlum.

Ferill Kobe Bryant í máli og myndum

Kobe Bryant, einn magnaðasti íþróttamaður og karakter íþróttasögunnar, er látinn. Í greininni verður reynt að gera ótrúlegum íþróttaferli Kobe mannsæmandi skil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×