Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - FH 28-32 | Mikilvægur sigur FH í Mosfellsbæ

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
FH-ingar fagna fyrr á leiktíðinni
FH-ingar fagna fyrr á leiktíðinni vísir/bára

 

FH vann öflugan sigur á Aftureldingu í Mosfellsbænum í kvöld, 28-32. Afturelding hafði góð tök á leiknum framan af enn þeirra leikur hrundi í síðari hálfleik. 

Heimamenn mættu öflugir til leiks og náðu fljótlega undirtökunum á leiknum. Gestirnir úr Hafnarfirði voru aldrei langt undan en um miðbik fyrri hálfleiks lentu þeir þremur mörkum undir og Sigursteinn Arndal tók leikhlé. Eftir það þéttist leikur FH til muna, þeir komu til baka og minnkuðu forystu Aftureldingar niður í eitt mark áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks, staðan í hálfleik 17-16, Aftureldingu í vil. 

Afturelding átti afleita byrjun á síðari hálfleik og tókst aðeins að skora eitt mark á fyrstu 10 mínútunum. Sóknarleikurinn hjá þeim hrundi algjörlega í síðari hálfleik eftir að FH breytti varnarleiknum í 3-2-1 og áttu heimamenn fá svör. 

Markvarslan var lítil í fyrri hálfleik en var frábær í seinni hálfleik á báðum endum vallarins, Björgvin Franz Björgvinsson hélt Aftureldingu inní leiknum eins mikið og hann gat og endaði með 14 bolta varða á meðan Phil Döhler endaði í 12 boltum.

Afturelding hafði skoraði tvö mörk þegar stundarfjórðungur var til leiksloka og sigur FH varð ekki í hættu á lokakaflanum. 

Leiknum lauk með fjögurra marka sigri FH, 28-32. 

Af hverju vann FH?  
FH steig upp á réttum tíma. Þeir mættu öflugir út í síðari hálfleik og tóku leikinn yfir. Þeir þéttu varnarleikinn og fengu markvörslu í kjölfarið. 

Hverjir stóðu upp úr?
Björgvin Franz Björgvinsson kom inná um miðbik fyrri hálfleiks og var frábær í markinu hjá Aftureldingu. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var öflugur sóknarlega fyrir heimamenn, skoraði 7 mörk og fiskaði 5 víti fyrir Guðmund Árna Ólafsson sem endaði markahæstur með 8 mörk, þar af fimm úr vítum. 

Ásbjörn Friðriksson sýndi leiðtoga hæfileika þegar FH snéri leiknum við og stýrði hann liðinu til sigurs. Arnar Freyr Ársælsson hélt FH gangandi í fyrri hálfleik og hann endaði efstur manna með 7 mörk en Einar Rafn Eiðsson var frábær í seinni hálfleik sem og liðið í heild.

Hvað gekk illa? 
Fyrst og fremst leikur Aftureldingar í síðari hálfleik, sóknarleikurinn var afleitur lengst af, það var mikið um einstaklings mistök og varnarlega voru þeir galopnir. 

Hvað er framundan? 
Næsta umferð er strax á laugardaginn, það er annar stórleikur framundan hjá Aftureldingu sem mætir Val á Hlíðarenda en stórleikur umferðarinnar er klárlega í Kaplakrika þegar nágrannarnir mætast, FH-Haukar. 

 

Sigursteinn fór hoppandi kátur frá Mosó vísir/bára

 

Steini Arndal: Það var enginn sáttur í hálfleik
„Ég er ánægður með sigurinn og líka ánægður með viðbrögðin í hálfleik. Við vorum ekki góðir í fyrri hálfleik svo það er full hrós á strákana virkilega góðan karakter í síðari hálfleik“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, að leik loknum í Varmá

Steini segir að varnarleikur í seinni hálfleik sé ástæðan fyrir sigrinum en hann hrósar einnig metnaðinum hjá sínum mönnum að snúa leiknum við 

„Það var enginn sáttur inní klefa í hálfleik og menn vissu að þeir skulduðu svo ég er mjög ánægður með viðbrögðin í hálfleik“ 

FH hefur endurheimt tvo leikmenn, þeir sóttu Jóhann Birgi Ingvarsson úr láni frá HK og svo er Egill Magnússon kominn aftur eftir meiðsli, Steini fagnar því að fá þá aftur

„Virkilega gaman að sjá þá koma inná völlinn í FH búning og þeir stóðu sig vel“ sagði Steini en honum vantaði í dag þá Ágúst Birgisson og Bjarna Ófeig Valdimarsson, sem glíma við meiðsli

„Við komum hingað til að sækja tvö stig og förum hoppandi glaðir heim“ sagði Sigursteinn að lokum ángæður með dagsverkið

 

Einar Andri var ekki ánægður með einstaklingshyggju leikmanna í dag vísir/bára

 

Einar Andri: Menn vildu taka þetta í eigin hendur
„Mér fannst allur fókus fara úr þessu“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar. 

„Eins og við spiluðum í fyrri hálfleik þá fékk boltinn að ganga og vinna og við biðum eftir besta sénsinum. Mér fannst það aðeins slitna eftir að hann fór að verja og menn vildu taka þetta í eigin hendur frekar en að gera þetta saman“ 

Einar Andri segir erfitt að svara því í fljótu bragði hvað gerist í síðari hálfleik en vill þó meina að það hafi komið leikmönnum úr jafnvægi þegar Phil Döhler fór að verja vel strax í upphafi síðari hálfleik. Afturelding skoraði aðeins tvö mörk á fyrstu 15 mínútum seinni hálfleiks

„Mér fannst síðan allur fókus fara úr þessu og einstaklingshyggja að ráða sem var ekki í fyrri hálfleik. Við náðum ekki að gera þetta saman, það fór aðeins að slitna milli manna“ sagði Einar Andri sem vildi fá meiri samvinnu og liðsheild frá leikmönnum í dag.

„Fyrstu 15 mínúturnar í seinni hálfleik voru bara hræðilegar sóknarlega. Við skoruðum ekki nema tvö mörk en við skoruðum samt 28 mörk í leiknum svo það segir okkur hvað 45 mínútur voru góðar, það er bara ekki hægt að eiga svona slakar 15 mínútur gegn svona sterku liði eins og FH“ sagði Einar Andri

 

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.