Handbolti

Einar: Eins og maður væri að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar skoraði sjö mörk gegn HK, þar af fimm í fyrri hálfleik.
Einar skoraði sjö mörk gegn HK, þar af fimm í fyrri hálfleik. vísir/eyþór

Einar Sverrisson lék í kvöld sinn fyrsta leik fyrir Selfoss síðan hann sleit krossband í hné í mars á síðasta ári. Einar skoraði sjö mörk í sigri Selfoss á botnliði HK, 29-34, í Kórnum.

„Þetta var pínu skrítið. Þetta var eins og maður væri að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik. En þetta var fínt og skemmtilegra en mig minnti,“ sagði Einar í samtali við Vísi eftir leik.

Skyttan öfluga byrjaði leikinn af miklum krafti og skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum Selfyssinga í leiknum.

„Ég var heitur í byrjun og það var gott fyrir mig að komast strax í gang. Við náðum aldrei að slíta okkur frá þeim en mér fannst við alltaf vera með yfirhöndina. Það vantaði aðeins meiri aukakraft í okkur. En mér fannst þetta aldrei í hættu,“ sagði Einar.

Hann segist vera í góðu ásigkomulagi og finni ekkert fyrir meiðslunum sem héldu honum utan vallar í tæpt ár.

„Staðan er góð og ég finn ekkert fyrir þessu. Vonandi heldur það áfram og ég verði heill og í toppstandi,“ sagði Einar.

Vegna meiðslanna missti hann af úrslitakeppninni í fyrra þar sem Selfoss varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins.

„Það var súrsætt fyrir mig. Þetta var gaman fyrir félagið og mig að taka þátt í því með þeim en mann langaði mikið að vera inni á vellinum þá. Það var klárlega hvatning í endurhæfingunni,“ sagði Einar að endingu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.