Viðskipti innlent

Hótel og hóp­­ferða­­fyrir­­­tæki fá af­­bókanir á háanna­­tíma­bili

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Jóhannes Þór segir vissulega vera áhyggjur meðal ferðaþjónustuaðila sem þjónusta kínverska hópa
Jóhannes Þór segir vissulega vera áhyggjur meðal ferðaþjónustuaðila sem þjónusta kínverska hópa visir/Vilhelm

Breska flugfélagið British Airways hefur fellt niður allt flug til og frá meginlandi Kína og indónesíska flugfélagið Lion Air ætlar að fella niður allt flug frá 1. febrúar.

Ekki er beint flug frá Kína til Íslands og talið að flestir kínverskir ferðamenn ferðist í gegnum Norðurlöndin eða Bretland.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir erfitt að átta sig á áhrifum niðurfellingar flugs umfram það ferðabann sem hefur þegar tekið gildi í Kína.

Algjört ferðabann er á svæðinu í kringum Wuhan en einnig hafa borist fregnir af hópferðabanni Kínverja. Ekki er staðfest hve víðtækt bannið er.

Jóhannes segir útbreiðslu veirunnar næstu vikur og mánuði skipta sköpum varðandi ferðaþjónustuna.

„Núna eru fyrirtækin að glíma við þessar afbókanir sem eru hafnar og reyna að átta sig á því hver staðan er, hversu víðtækt þetta er og hverju megi búast við inn í sumarið. Það er erfitt að spá fram í tímann á þessari stundu,“ segir Jóhannes Þór.

Hann segir ýmis fyrirtæki fá afbókanir.

„Við heyrum frá hótelunum og hópfyrirtækjunum. Þetta hópferðabann í Kína hefur áhrif fyrst á þessi fyrirtæki. Svo er þetta afleitt út í afþreyingamarkaðinn og fyrirtæki á þeim vettvangi sem er að taka móti hópum. Þetta hefur áhrif á alla keðjuna,“ segir Jóhannes Þór.

Hópur Kínverja sem ferðast á eigin vegum fer einnig stækkandi en Kínverjar voru hundrað þúsund af tveimur milljónum ferðamanna á Íslandi í fyrra. Gert var ráð fyrir svipuðum fjölda í ár og þá ekki síst nú í febrúar enda mikið ferðatímabil að hefjast hjá Kínverjum vegna kínverska nýársins.

„Þetta eru ferðatímabil sem eru utan háannar hjá okkur og hafa skipt töluverðu máli fyrir fyrirtækin sem hafa verið að taka á móti þessum hópum,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×