Handbolti

13. janúar í stórmótasögu Íslands: Einn sigur og eitt tap

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gísli Kristjánsson í leiknum á móti Spánverjum á HM fyrir nákvæmlega ári síðan.
Gísli Kristjánsson í leiknum á móti Spánverjum á HM fyrir nákvæmlega ári síðan. Getty/Sven Hoppe

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur tvisvar áður spilað leik í stórmóti 13. janúar og voru báðir þeir leikir á heimsmeistaramóti. Þetta er því fyrsti leikurinn á EM á þessum mánaðardegi.

Annar leikur Íslands á EM 2020 fer fram í dag þegar íslensku strákarnir spila mjög mikilvægan leik á móti Rússum.

Seinni leikurinn á þessu mánaðardegi var á HM í Þýskalandi fyrir ári síðan en sá fyrri á HM á Spáni árið 2013.

Ísland mætti Spánverjum á HM 2019 á þessum degi í fyrra og varð að sætta sig við sjö marka tap, 25-32.

Það gekk aftur á móti mun betur á HM 2013 þegar íslenska liðið vann sextán marka sigur á Síle á þessum degi, 38-22.

Í leiknum á móti Spánverjum á þessum degi í fyrra lögðu spænsku landsliðsmennirnir grunninn að sigrinum með góðum endakafla í fyrri hálfleik þegar þeir breyttu stöðunni úr 9-8 í 19-14.

Spánverjar voru síðan komnir sjö mörkum yfir um miðjan seinni hálfleik og unnu öruggan sigur.

Ólafur Guðmundsson var markahæstur í íslenska liðinu með sex mörk en Aron Pálmarsson skoraði 5 mörk. Fjögur af fimm mörkum Arons komu á fyrstu fjórtán mínútum leiksins.

Leikurinn á móti Síle á HM 2013 var annar leikur íslenska liðsins á heimsmeistaramótinu á Spáni eftir að sá fyrsti tapaðist með fimm marka mun á móti Rússum.

Íslenska liðið átti ekki í miklum vandræðum með Síle, var komið sjö mörkum yfir í hálfleik, 18-11, og vann síðan seinni hálfleikinn 20-11.

Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur í íslenska liðinu með sjö mörk en Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk. Stefán Rafn Sigurmannsson var þriðji markahæstur með fimm mörk og þá varði Aron Rafn Eðvarðsson 13 skot í markinu þar af tvö víti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×