Handbolti

Heimsmeistarar Dana gætu verið úr leik á EM eftir leiki dagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er mikil press á Mikkel Hansen og félögum í dag.
Það er mikil press á Mikkel Hansen og félögum í dag. Getty/Jan Christensen

Tap danska landsliðsins á móti íslensku strákunum á laugardaginn þýðir að danska landsliðið spilar mögulega leik upp á líf eða dauða á móti Ungverjum í dag.

Ísland spilar við Rússland klukkan 17.15 en leikur Danmerkur og Ungverjalands er síðan strax á eftir.

Aðeins tvö lið komast áfram í milliriðla upp úr hverjum riðli og því myndi íslenskur sigur fara langt með að tryggja íslenska liðinu sæti þar.

Danir mega hins vegar ekki misstíga sig í leiknum við Ungverja.

Ekstrabladet fór yfir stöðuna í dag og skiptu möguleikum danska landsliðsins niður í þrjá hluta.



Danska landsliðið er úr leik ef ...

Danir tapa á móti Ungverjum og Ísland fær stig á móti Rússum.



Danska landsliðið kemst áfram ef ...

Danir vinna að minnsta kosti tveggja marka sigur á Ungverjum og vinna svo Rússa í lokaumferðinni.



Danska landsliðið kemst áfram með tvö stig ef ...

Einfalda leiðin er að Danir vinni báða sína leiki á meðan Ísland tapar báðum sínum.

Fari svo að Rússar endi stigalausir á botninum þá þurfa Danir að treysta á að Ungverjar fylgi þeim upp úr riðlinum en ekki Ísland. Þá gæti innbyrðisstaða ráðið úrslitum.

Danir gæti þá lent í þeirri stöðu að mega ekki vinna Ungverja of stórt svo að Ungverjar geti komist upp fyrir Ísland með sigri á Íslendingum í lokaleiknum.

Vinni Danir Ungverja sem dæmi með þremur mörkum þá þurfa Ungverjar að vinna Ísland jafn stórt í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×