Handbolti

Aron: Það vantar einhvern eld í mig

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar

Strákarnir okkar eru í vandræðum í milliriðli sínum á EM eftir tapið gegn Slóvenum í gær. Besti leikmaður liðsins, Aron Pálmarsson, hefur því miður ekki náð að fylgja eftir frábærri byrjun sinni á mótinu og hefur verið slakur í síðustu leikjum. Hann er þó ekki af baki dottinn.

„Auðvitað er ég ekki sáttur að hafa tapað síðustu tveimur leikjum og spila líka svona illa. Það leggst aðeins á mann,“ sagði Aron svekktur.

„Ég er búinn að fá sjá gloríur sem ég gerði. Fínt fyrir mig, aðeins að meiða mig. Það er bara undir mér komið að snúa því við.“

Aron ætlaði sér virkilega stóra hluti á þessu móti og sýndi að honum var alvara í fyrsta leik. Síðan hefur lítið gengið.

„Eðlilega tek ég þetta inn á mig. Ég hef verið að vinna í þessu og skoða hvað er að fara úrskeiðis. Það vantar einhvern eld í mig og liðið. Okkur vantar íslensku geðveikina. Hún er til og við vitum það. Það er stutt í hana og við vitum hvar við getum náð í hana. Við verðum því allir að gjöra svo vel og gera það,“ segir skyttan og bendir á að það þurfi að byrja á honum og öðrum reyndari mönnum.

„Það er ekki eins og hin liðin séu búin að vera að stoppa mig. Það er meira að ég er að gera mistök sjálfur. Nú eru komnir tveir slakir leikir í röð og ég verð að mæta 100 prósent í næsta leik.“


Tengdar fréttir

Uppgjör Henrys: Súrt tap gegn Slóvenum

Eftir að hafa flogið hátt í upphafi EM hafa strákarnir okkar misst flugið og töpuðu sínum öðrum leik í röð í kvöld. Nú gegn Slóveníu, 30-27. Ólympíudraumurinn verður því fjarlægari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×