Fótbolti

Segja að spænska sambandið fái 5,5 milljarða fyrir að spila Ofurbikarinn í Sádí Arabíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með Ofurbikarinn sem Barcelona vann í fyrra.
Lionel Messi með Ofurbikarinn sem Barcelona vann í fyrra. Getty/Joan Cros Garcia

Spænski Ofurbikarnn, Super Cup, sem er meistarakeppni spænska fótboltans fer fram með breyttu sniði í ár en nú taka fjögur félög þátt og keppnin fer líka fram langt í burtu frá Spáni.

Spænski Ofurbikarinn er nú allur spilaður í Sádí Arabíu. Undanúrslitin fara fram í dag og á morgun en úrslitaleikurinn er síðan á sunnudaginn kemur.

Ofurbikarinn var settur á laggirnar árið 1982 og þangað til í fyrra léku meistararnir og bikarmeistararnir alltaf tvo leiki heima og að heiman.

Í fyrra var það bara einn leikur á milli spænsku meistaranna og spænsku bikarmeistaranna en sá leikur var spilaður í Marokkó.



Nú býr spænska knattspyrnusambandið til nýja keppni en í spænska ofurbikarnum í ár taka þátt tvö efstu liðin í spænsku deildinni og liðin sem mættust í bikarúrslitaleiknum.

Liðin sem fengu þáttökurétt í spænska Ofurbikarnum í ár eru Barcelona, Real Madrid, Atletico Madrid og Valencia.

Barcelona varð spænskur meistari og Atletico Madrid endaði í öðru sæti í deildinni. Í bikarúrslitaleiknum vann Valencia sigur á Barcelona. Þar sem Barcelona var þegar komið með þátttökurétt þá fellur fjórða sætið til þess liðs sem var hæst í deildinni af þeim sem hafa ekki fengið þátttökurétt. Það var lið Real Madrid sem endaði í 3. sæti spænsku deildarinnar.



Liðin fjögur voru líka þau lið sem enduðu í fjórum efstu sætum spænsku deildarinnar 2018-19.

Leikirnir fara allir fram á sama velli eða hinum 60 þúsund manna King Abdullah Sports City leikvangi í  Jeddah.

Spænska knattspyrnusambandið græddi mikinn pening á að færa keppnina til Sádí Arabíu. Sambandið hefur ekki gefið töluna upp en spænsku blöðin halda því fram að það fái 40 milljónir evra á ári fyrir þennan þriggja ára samning við Sádana.

40 milljónir evra eru 5,5 milljarðar íslenskra króna.

Vandamálið er að stuðningsmenn spænsku liðanna hafa ekki sýnt keppnini mikinn áhuga. Atlético de Madrid seldi aðeins 50 miða, Valencia C.F seldi 27 miða,  FC Barcelona seldi í kringum 300 miða og Real Madrid náði að selja næstum því 700 miða. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×