Bílar

Mitsubishi hættir kynningu nýrra gerða í Evrópu

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Mitsubishi Outlander PHEV
Mitsubishi Outlander PHEV

Japanski bílaframleiðandinn Mitsubishi hefur tilkynnt að hætt verði að kynna nýjar gerðir bíla í Evrópu, sem leið til að draga úr föstum kostnaði. Mitsubishi er í miklum fjárhagskröggum samkvæmt frétt Reuters.

Mitsubishi, sem er sjötti stærsti bílaframleiðandi Japan hefur áætlað að draga þurfi úr föstum kostnaði um 20% á næstu tveimur árum. Mitsubishi segist raunar ætla að frysta um ókomna tíð kynningar á nýjum gerðum í Evrópu, sem þýðir að næsta kynslóð af L200 pallbílnum, Outlander og Mirage borgarbílnum verða sennilega ekki í boði í Evrópu.

Starfsemi félagsins mun því miðast eingöngu við Asíu-markað og með sérstaka áherslu á suð-austur Asíu. Þar er félagið með 6,4% markaðshlutdeild miðað við einungis 1% í Evrópu og 0,9% í Bandaríkjunum. Suð-austur Asía skilaði fimmfalt meiri tekjum á síðasta ári en restin af heiminum samanlagt.

„Við munum færa fókusinn frá stækkun á öllum mörkuðum yfir í valda markaði þar sem við munum einbeita okkur sérstaklega. Fyrsta skrefið er að klára endurskipulagninguna og styrkja okkar samkeppnishæfni - sem mun leiða til innviða sem geta skilað hagnaði innan skamms tíma,“ sagði Takao Kato, framkvæmdastjóri Mitsubishi Motors um málið í gær.

Enn er óvíst hvaða áhrif þessi ákvörðun mun hafa á sölu Mitsubishi á Íslandi. Leitað hefur verið eftir upplýsingum hjá Heklu, umboðsaðila Mitsubishi á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×