Skoðun

Bókhaldsbrellur með þorsk

Örn Pálsson skrifar

Í fréttum RÚV sl. fimmtudag 16. júlí sagði Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Ég hef ítrekað sagt að ef það er svigrúm þar þá munum við nýta það í þágu strandveiðanna.“

Fyrr í viðtalinu hafði komið fram hjá ráðherra: „Varðandi framhaldið þá er ráðuneytið mitt núna í þessum töluðu orðum að taka saman hvort það séu lausar aflaheimildir í öðrum pottum innan 5,3 prósenta kerfisins. Ég vonast eftir því að við getum lokið þessu innan tíðar,“.

Stóra samhengið

Landssamband smábátaeigenda (LS) er þeirrar skoðunar að yfirvofandi stöðvun strandveiða í fyrstu viku ágústmánaðar snúist ekki um hvort tekist hafi að afla þorskveiðiheimilda inn í 5,3% pottinn í skiptum fyrir aðrar tegundir. Það er deginum ljósara að ráðherra er heimilt að auka við þorskveiðiheimildir til strandveiða. Stóra samhengið hlýtur að snúast um það hvort farið er umfram leyfilegan heildarafla í þorski á fiskveiðiárinu, en ekki að setja upp einhverjar bókhaldsbrellur til útreikninga.

Um miðjan maí gerði ráðherra breytingu á ákvæði reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni. Þar ákvað hann að útgerðum yrði heimilað að flytja 25% úthlutaðs aflamarks yfir á næsta fiskveiðiár í stað 15% eins og reglur hafa kveðið á um. LS hafði óskað eftir þessari breytingu þann 23. mars vegna óvissu um verð og sölu afla vegna áhrifa frá Covid-19.

Svigrúm til aukningar

Greinilegt er að útgerðir hafa nýtt sér heimildina með því að hægja á veiðum og freista þess að auka verðmæti veiðiheimildanna. Samanburður milli fiskveiðiára til og með 15. júlí sýnir að í ár á eftir að veiða 12% af leyfilegum heildarafla í þorski en 9% á sama tíma í fyrra, mismunur upp á 9.555 tonn. Tölurnar sýna að auknar heimildir til flutnings milli ára hafa gefið ráðherra gott svigrúm til að auka þorskafla til strandveiða.

Það er í raun með ólíkindum að berjast þurfi fyrir svo sjálfsögðum hlut í því ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu.

Beðið eftir ákvörðun ráðherra

Sjómenn 650 báta bíða nú ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um það hvort þeir verði að binda og hætta veiðum í byrjun næsta mánaðar eða verði heimilt að nýta strandveiðileyfið til ágústloka eins og það er stílað á. Ákvörðun þessa efnis er hjá sjávarútvegsráðherra. Veiðiheimildirnar eru í hendi ráðherra sem á þessum tímapunkti verða best nýttar með veiðum strandveiðibáta til ágústloka.

Höfundur er framkvæmdastjóri landssambands smábátaeigenda



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×