Körfubolti

Hægt að hjálpa Jóni Arnóri að komast inn í EuroBasket-draumalið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson kvaddi eftir hundraðast landsleikinn sinn.
Jón Arnór Stefánsson kvaddi eftir hundraðast landsleikinn sinn. Vísir/Bára

Jón Arnór Stefánsson er einn af þeim sem koma til greina í fimm manna úrvalslið frá minni þjóðunum sem hafa komist í úrslitakeppni EM, EuroBasket, á 21. öldinni.

Alþjóða Körfuknattleikssambandið, FIBA, er að velja draumalið fyrir úrslitakeppni EM á árinum 2000 til 2020 en í þetta umrædda lið eru aðeins gjaldgengir leikmenn frá litlu þjóðunum sem hafa komist alla leið í úrslitakeppnina.

FIBA stendur fyrir kosningunni á heimasíðu sinni en sambandið hafði áður valið úrvalslið EuroBasket á þessari öld en tuttugu fyrstu ár hennar eru nú að baki.

Ísland er ein af þessum minni þjóðum sem hafa sett mikinn svip á úrslitakeppni EM í körfubolta á síðustu tveimur áratugum.

Íslenska landsliðið komst tvisvar á Eurobasket á þessum tíma, fyrst spilaði liðið í Berlín í Þýskalandi árið 2015 og svo í Helsinki í Finnlandi árið 2017.

Sextán leikmenn eru tilnefndir og er Jón Arnór Stefánsson fulltrúi íslenska landsliðsins í þessari kosningu og ekki að ástæðulausu. Jón Arnór var algjör lykilmaður í báðum Eurobasket liðum Íslands.

Jón Arnór var með 11,9 stig og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í þessum tveimur úrslitakeppnum.

Íslendingar sem og aðrir fá möguleika á að velja sér sitt úrvalslið og geta því gefið Jóni Arnóri atkvæðið sitt.

Jón Arnór er í baráttunni því samkvæmt síðustu tölum hafði hann fengið fimm prósent atkvæða og var í sjöunda sæti. Jón þarf þó mun fleiri atkvæði því hann er sex prósentustigum frá fimmta og síðasta sætinu inn í liðið.

Það er hægt að kjósa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×