Körfubolti

Jón Axel í þýska körfuboltann: Martin Hermannsson sagði honum góða hluti af félaginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson Wildcats í bandaríska háskólakörfuboltanum.
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson Wildcats í bandaríska háskólakörfuboltanum. Getty/Lance King

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Jón Axel Guðmundsson hefur gert eins árs samning við þýska körfuboltafélagið Fraport Skyliners og spilar því í deildinni sem Martin Hermannsson hjálpaði Alba Berlín að vinna í ár.

„Mér líður vel með þessa ákvörðun og hlakka til að spila hérna,“ sagði Jón Axel Guðmundsson í viðtali við heimasíðu þýska liðsins.

Jón Axel var að klára háskólaferilinn með Davidson þar sem hann spilaði sig inn í sögubækur skólans. Nú er hins vegar komið að fyrstu skrefunum á atvinnumannaferlinum.

„Góður vinur minn Martin Hermannsson spilaði með Berlín undanfarin tvö ár og hann sagði mér góða hluti af þessu félagi og hvernig andrúmsloftið væri á heimaleikjunum,“ sagði Jón Axel.

„Ég fæddist í Þýskalandi og eyddi hér fyrstu þremur árum ævi minnar. Það er því gott að koma hingað aftur og fá að kynnast landinu aftur sem fullorðinn maður,“ sagði Jón Axel.

„Ég er mjög ánægður með að Jón Axel komi til okkar. Ég þekki hann frá Evrópukeppnum yngri landsliða og átti mjög gott samtal við hann. Hann er mjög fjölhæfur leikmaður og getur spilað allar þrjár bakvarðarstöðurnar fyrir okkur,“ sagði Sebastian Gleim, þjálfari Fraport Skyliners.

„Jón er ekki hinn dæmigerði nýliði. Hann þekkir vel til evrópska boltans og hefur spilað fyrir Ísland í síðustu landsleikjaglugga. Við ætlum að hjálpa honum að koma sér inn í þýsku bundesliguna,“ sagði Gleim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×