Innlent

Flug­freyjur og Icelandair á fund ríkis­sátta­semjara í dag

Telma Tómasson skrifar
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. Í forgrunni má sjá Guðlaugu Líney, formann FFÍ, en myndin er tekin í síðustu lotu samningaviðræðna FFÍ og Icelandair. Niðurstaða þeirrar lotu var samningur sem FFÍ felldi. 
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. Í forgrunni má sjá Guðlaugu Líney, formann FFÍ, en myndin er tekin í síðustu lotu samningaviðræðna FFÍ og Icelandair. Niðurstaða þeirrar lotu var samningur sem FFÍ felldi.  Vísir/Vilhelm

Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Icelandair, hittast á fundi klukkan þrjú hjá ríkissáttasemjara í dag til að fara yfir stöðuna á ný, eftir að flugfreyjufélagið felldi kjarasamning á miðvikudag sem hafði verið undirritaður 25. júní eftir langar og strangar viðræður.

Eftir að samningurinn var felldur sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, að samningurinn hafi verið sá besti sem bauðst og það hafi verið vonbrigði að hann hafi verið felldur. Sagði Bogi að með samningnum hefði verið gengið eins langt og mögulegt var til að koma til móts við samninganefnd FFÍ og að staðan væri ekki góð.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.Vísir/Vilhelm

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að það væri öllum til heilla ef Icelandair bakkaði með sínar ítrustu hagræðingarkröfur gagnvart flugfreyjum og gengið yrði frá nýjum samningi. Hún sagði hagræðingarkröfu Icelandair snerta tugi atriða. Í megindráttum væri verið að krefjast aukins vinnuframlags fyrir sömu laun, skerðinga á hvíldartíma og breytinga á vaktafyrirkomulagi.

Samningaviðræður FFÍ og SA, fyrir hönd Icelandair, voru sagðar mjög flóknar enda kom hagræðingaferli Icelandair inn í samningsgerðina, en samningar við stéttarfélög eru meðal lykilatriða í fjárhagslegri endurskipulagningu flugfélagsins sem nú stendur yfir. Ríkissáttasemjari sagði í samtali við fréttastofu í vikunni að farið yrði yfir málið á ný, það greint og reynt að finna nýjan flöt. Hann sagðist þess fullviss að allir myndu gera sitt besta til að ná saman.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×