Golf

Tiger snýr aftur á PGA-mótaröðina í næstu viku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tiger Woods með Jack Nicklaus eftir sigurinn á Memorial mótinu 2012.
Tiger Woods með Jack Nicklaus eftir sigurinn á Memorial mótinu 2012. getty/Scott Halleran

Tiger Woods snýr aftur á PGA-mótaröðina um næstu helgi þegar hann keppir á Memorial mótinu í Ohio í Bandaríkjunum. Hann greindi frá þessu á Twitter í dag.

Tiger hefur ekki enn keppt á PGA-mótaröðinni síðan hún hófst á ný fyrir mánuði eftir hlé vegna kórónuveirufaraldursins.

Enginn kylfingur hefur unnið Memorial mótið jafn oft og Tiger, eða fimm sinnum. Hann vann það þrjú ár í röð (1999-2001), svo 2009 og loks 2012.

Tiger keppti síðast með Peyton Manning, fyrrverandi NFL-stjörnu, í góðgerðareinvíginu „The Match: Champions for Charity“ í Flórída í maí. Þeir unnu þá sigur á Phil Mickelson og Tom Brady.

Tiger hefur ekki keppt á PGA-mótaröðinni síðan á Genesis Invitational í febrúar. Hann varð þá neðstur af þeim sem komust í gegnum niðurskurðinn.

Meðal annarra kylfinga sem keppa á Memorial mótinu eru Brooks Koepka, Jon Rahm og Rory McIlroy, efsti maður heimslistans. Patrick Cantlay er á titil að verja en hann vann Memorial mótið í fyrra.

Tiger hefur unnið 82 mót á PGA-mótaröðinni á ferlinum og deilir metinu yfir flesta sigra með Sam Snead.

Klukkan 19:00 í kvöld hefst bein útsending á fyrsta degi Workday Charity Open á PGA-mótaröðinni á Stöð 2 Golf. Einnig verður sýnt beint frá Memorial mótinu í næstu viku. Það hefst fimmtudaginn 16. júlí.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.