Körfubolti

Valsmenn búnir að semja við Sinisa Bilic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sinisa Bilic í leik með Tindastól á móti Stjörnunni á síðasta tímabili.
Sinisa Bilic í leik með Tindastól á móti Stjörnunni á síðasta tímabili. Vísir/Bára Dröfn

Slóveninn Sinisa Bilic hefur gert samning við Valsmenn í Domino´s deild karla í körfubolta og er þetta fyrsti nýi leikmaðurinn sem Finnur Freyr Stefánsson fær til liðsins.

Sinisa Bilic er að fara að spila sitt annað tímabil í röð í Domino´s deildinni því hann spilaði með Tindastóls á síðustu leiktíð.

„Sinisa er hávaxinn framherji sem getur leyst margar stöður á vellinum. Hann er sterkur íþróttamaður og hefur orð á sér að vera góður skorari. Sinisa kemur jafnframt með mikla reynslu inn í liðið en hann hefur leikið lengst af í Slóveníu og Slóvakíu á sínum ferli,“ segir í frétt Valsmanna um nýja leikmanninn.

Sinisa Bilic var með 19,6 stig, 5,8 fráköst og 2,3 stoðsendingar að meðaltali með Tindastól í Domino´s deildinni á síðustu leiktíð. Hann var með 20,5 stig að meðaltali og 42 prósent þriggja stiga nýtingu í leikjunum tveimur á móti Val.

Valsmenn höfðu áður tilkynnt að þeir væru búnir að gera nýjan samning við Frank Aron Booker og að þeir Austin Magnús Bracey og Ragnar Ágúst Nathanaelsson yrðu ekki áfram hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×