Golf

Halda áfram á PGA þrátt fyrir smit – Óróleiki í ráshópnum

Sindri Sverrisson skrifar
Nick Watney lék fyrsta hringinn á RBC Heritage mótinu en varð svo að hætta.
Nick Watney lék fyrsta hringinn á RBC Heritage mótinu en varð svo að hætta. VÍSIR/GETTY

Hinn 39 ára gamli Nick Watney varð að hætta keppni á PGA-mótinu RBC Heritage eftir að hann reyndist smitaður af kórónuveirunni. Aðrir kylfingar munu halda áfram leik þrátt fyrir að málið hafi valdið einhverjum óróleika.

Keppni á PGA-mótaröðinni er eitt af fyrstu skrefunum í að íþróttalíf í Bandaríkjunum komist aftur í sama far og fyrir kórónuveirufaraldurinn. Engir áhorfendur eru á mótunum og þurfa keppendur að fara eftir ýmsum reglum til að minnka smithættu. Allir fóru þeir í próf við komuna á mótið í Suður-Karólínu, þar á meðal Watney, en ekkert smit greindist þá. Watney lék fyrsta hring mótsins á fimmtudag en hætti svo.

„Á föstudag, áður en hann mætti á mótsstað, sagðist hann finna fyrir einkennum og eftir að hann ráðfærði sig við lækni var tekið próf sem reyndist jákvætt,“ sagði í yfirlýsingu frá PGA-mótaröðinni.

„Nick mun njóta fulls stuðnings PGA í bataferlinu og einangruninni sem nú tekur við, í samræmi við leiðbeiningar heilbrigðisyfirvalda. Með heilsu allra sem að mótaröðinni koma í huga hefur PGA-mótaröðin hafið viðbragðsaðgerðir í samráði við heilbrigðissérfræðinga, þar á meðal með þeim sem voru í mestum samskiptum við Nick,“ sagði í yfirlýsingunni.

Hjartað sló hraðar og maður varð órólegur

Luke List og Vaughn Taylor voru í ráshópi með Watney og héldu áfram keppni í gær. Taylor greindi frá því að starfsmaður mótaraðarinnar hefði sagt þeim frá veikindum Watney eftir fyrri níu holurnar í gær.

„Ég fékk smá sjokk, ef ég á að segja eins og er. Hjartað fór að slá hraðar og maður varð svolítið órólegur,“ sagði Taylor. Þeir List og kylfusveinar voru strax teknir í próf til að sjá hvort að þeir hefðu smitast.

„Ég var ekki í neinum nánum samskiptum við Nick í gær. Við héldum okkar fjarlægð og tókumst ekki í hendur. Strax eftir hringinn þá þvoði ég mér um hendurnar. Nick hóstaði aldrei eða hnerraði. Þess vegna líður mér ágætlega,“ sagði Taylor.

Brooks Koepka veltir fyrir sér pútti á RBC Heritage mótinu.VÍSIR/GETTY

Brooks Koepka, sem eitt sinn var efsti maður heimslistans, tók undir að það væri óþægilegt að vita til þess að smit hefði komið upp í keppendahópnum.

„Það er óheppilegt að Nick hafi smitast. Á sama tíma vonar maður að þetta sé einangrað tilvik og að þetta dreifist ekki, því við stöndum frammi fyrir miklum vanda ef að þetta heldur svona áfram á komandi vikum,“ sagði Koepka.

Mótið í Suður-Karólínu er aðeins annað mótið eftir langt hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Í síðustu viku fór fram Charles Schwab Challenge þar sem 487 sýni voru tekin en ekkert reyndist jákvætt. Watney lék á því móti en komst ekki í gegnum niðurskurðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×