Golf

Táningur kom Haraldi í afar slæma stöðu - Berglind og Saga bítast um sæti í 8 manna úrslitum

Sindri Sverrisson skrifar
Saga Traustadóttir og Rúnar Arnórsson hafa titil að verja og unnu sína leiki í dag.
Saga Traustadóttir og Rúnar Arnórsson hafa titil að verja og unnu sína leiki í dag. mynd/seth@golf.is

Hinn 18 ára gamli Kristófer Karl Karlsson úr GM gerði sér lítið fyrir og vann sigur gegn Haraldi Franklín Magnús í riðlakeppni Íslandsmótsins í holukeppni á Akureyri í dag.

Nú er tveimur af þremur umferðum riðlakeppninnar lokið, bæði í karla- og kvennaflokki, en lokaumferðin fer fram í fyrramálið og 8 manna úrslit hefjast eftir hádegi.

Haraldur, sem vann mótið 2012, þarf að treysta á að Kristófer tapi gegn bróður sínum, Theodór Emil, til að eiga möguleika á að komast í 8 manna úrslit. Aðeins efsti maður hvers riðils kemst þangað en leikið er í átta fjögurra manna riðlum í karlaflokki. Kristófer vann báða leiki sína í dag, 1/0 gegn Haraldi en 2/0 gegn Sigurði Arnari Garðarssyni.

Alls eru sex leikmenn með í karlaflokki sem unnið hafa Íslandsmótið í holukeppni. Rúnar Arnórsson hefur titil að verja og vann báða leiki sína í dag. Auk hans og Haraldar hafa þeir Kristján Þór Einarsson, Arnór Ingi Finnbjörnsson, Axel Bóasson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson orðið Íslandsmeistarar í holukeppni. Axel og Guðmundur eru í góðum málum en Kristján tapaði gegn Aroni Snæ Júlíussyni og Arnór Ingi hefur tapað báðum sínum leikjum.

Í kvennaflokki eru einnig sex kylfingar sem orðið hafa Íslandsmeistarar í holukeppni, og er hver þeirra búin að vinna báða sína leiki. Saga Traustadóttir á titil að verja en þær Berglind Björnsdóttir, sem sigraði 2016, eru saman í riðli og leika á morgun um sæti í 8 manna úrslitum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur unnið mótið tvisvar og þær Valdís Þóra Jónsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir einu sinni hver.

Öll úrslit á mótinu má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×