Viðskipti innlent

Aflýsa beinu flugi til Akureyrar frá Hollandi í sumar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hollenska ferðaskrifstofan Voigt bauð meðal annars upp á flug milli Akureyrar og Rotterdam með hollenska flugfélaginu Transavia síðastliðið sumar.
Hollenska ferðaskrifstofan Voigt bauð meðal annars upp á flug milli Akureyrar og Rotterdam með hollenska flugfélaginu Transavia síðastliðið sumar. Vísir/Tryggvi Páll

Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur ákveðið að aflýsa öllum flugferðum á sínum vegum í sumar, þar með talið til Akureyrar. Ástæðan er óvissan sem enn ríkir vegna Covid 19 faraldursins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.

Gert var ráð fyrir vikulegum flugferðum fá milli Rotterdam og Akureyrar í sumar, líkt og sumarið 2019. Sumaráætlunin átti að hefjast í byrjun júní en var slegið á frest vegna óvissu vegna kórónuveirufaraldursins.

Í dag tilkynnti hollenska ferðaskrifstofan hins vegar að hún hefði aflýst öllum flugferðum á sínum vegum í sumar, og þar á meðal til Akureyrar. Ekkert verður því af beinu flugi á milli Hollands og Akureyrar í sumar.

Í tilkynningu frá Markaðsstofunni segir að vegna óvissunnar um ferðalög í kjölfar Covid-19 hafi flestir farþegar Voigt Travel afbókað sínar ferðir í sumar.

Um 2/3 hlutar Hollendinga hyggjast ekki ferðast til annarra landa á þessu ári og þeir sem ætla út fyrir landsteinana horfa helst til næstu nágrannalanda. Grundvöllur fyrir flugi í sumar var því brostinn.

„Hins vegar eru áform Voigt Travel um flugferðir á næsta ári óbreytt. Stefnt er að 10 flugferðum frá Amsterdam til Akureyrar frá og með 10. febrúar og svo vikulegu flugi næsta sumar,“ segir í tilkynningunni.

„Covid 19 faraldurinn varð til þess að við þurftum að taka þá erfiðu ákvörðun að aflýsa flugi okkar í sumar. En við horfum til bjartari tíma á næsta ári. Við höfum trú á áfangastaðnum Norðurlandi og viljum halda áfram að byggja á því góða samstarfi sem við höfum átt við ferðaþjónustuaðila þar“ er haft eftir Cees van den Bosch, framkvæmdastjóri Voigt Travel í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×