Körfubolti

Borgaði yfir þrjár milljónir fyrir tuttugu síðna ástarbréf frá Michael Jordan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan í leik með Chicago Bulls á svipuðum tíma og hann skrifaði bréfið.
Michael Jordan í leik með Chicago Bulls á svipuðum tíma og hann skrifaði bréfið. Getty/Focus on Sport

Einn aðdáandi Michael Jordan fékk greinilega ekki að vita nóg um sinn mann með því að horfa á „The Last Dance“ þættina því hann var tilbúinn að borga 25 þúsund dali eða 3,3 milljónir króna til að fá að lesa gamalt ástarbréf frá Michael Jordan.

Þetta er reyndar ekkert venjulegt ástarbréf því það er upp á heilar tuttugu síður og Michael Jordan lá þarna greinilega mikið á hjarta.

Seljandinn græddi líka mikið á því að bjóða bréfið upp núna á meðan Michael Jordan var mikið í umræðunni. Ástarbréfið keypti hann á 2560 dali árið 2014 og hagnaður hans er því meira 22 þúsund dalir eða 2,9 milljónir íslenskra króna.

Ástarbréfið skrifaði Michael Jordan til leikkonunnar Amy Hunter sem hann hélt við á sínum tíma. Amy Hunter var þarna 24 til 25 ára gömul en Jordan er þremur árum eldri en hún.

Bréfið er talið að hafa verið skrifað nokkrum mánuðum eftir að Jordan giftist Juanitu í september 1989. Þau eru skilin í dag. Jordan nefnir fyrsta barn hans og Juanitu í bréfinu.

Jeffrey Michael Jordan fæddist 18. nóvember 1988. Juanita og Michael Jordan áttu tvö önnur börn saman en skildu endanlega í desember 2006. Michael Jordan er nú giftur Yvette Prieto og eiga þau sex ára tvíburadætur saman.

„Amy, stundum er ég eigingjarnasti maðurinn á jörðinni af því að í heilt ár hugsaði ég bara um Michael,“ skrifaði Jordan meðal annars í bréfinu.

„Ég viðurkenni það að ég gerði mistök og það var erfitt fyrir mig að breyta því. Segjum sem svo að mér takist að laga mistökin. Þú getur ekki ímyndað þér vandræðin sem við myndum lenda í. Það er óhugsandi. Við gætum ekki átt ánægjulegt samband eða fengið að vera í friði. Allur heimurinn myndi hafa skoðun á okkar einkamálum. Það er pressa sem ég gat ekki lifað við,“ skrifaði Jordan.

„Amy, ef ég væri bara Michael Jordan, venjulegur níu til fimm maður, þá væri það ekki erfitt að viðurkenna mistökin. Í staðinn þá er ég Michael Jordan sem fólk setur upp á stall og álítur að sé hin fullkomna fyrirmynd. Fullt af fólki, ekki bara krakkar heldur heilar fjölskyldur. Getur þú ímyndað þér ábyrgðina sem ég þarf að lifa með. Svo er það barnið sem ég á með konu sem ég hef elskað í þrjú og hálft ár,“ skrifaði Michael Jordan í ástarbréfið sitt.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.