Körfubolti

Íslenska Domino´s deildin hefst á sama tíma og NBA-deildin mun klárast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James ætlaði sér stóra hluti með Los Angeles Lakers liðinu í úrslitakeppni og það hefur væntanlega ekkert breyst.
LeBron James ætlaði sér stóra hluti með Los Angeles Lakers liðinu í úrslitakeppni og það hefur væntanlega ekkert breyst. Getty/Harry How

NBA-deildin er farin að leggja lokahönd á það hvernig hún ætlar að klára NBA-tímabilið sem fór í algjört frost þegar kórónuveirufaraldurinn fór á flug í Bandaríkjunum í marsmánuði.

Adrian Wojnarowski hefur það eftir sínum öflugu heimildarmönnum að fari lokaúrslit NBA-deildarinnar í körfubolta alla leið í leik sjö þá mun sá leikur fara fram 12. október næstkomandi.

Þetta þýðir að lokaúrslitin í NBA í ár munu því hefjast í lok september eða nokkrum dögum áður en Domino´s deild karla 2020-21 fer af stað. Fyrsta umferð Domino´s deildar karla á að fara fram 1. október.

NBA-deildin mun þó breyta nokkuð venjulegu fyrirkomulagi sínu til að geta klárað tímabilið. Væntanlega munu 22 lið (af 30) taka þátt í lokakafla 2019-20 tímabilsins en fyrirkomulagið verður kynnt á allra næstu dögum. NBA-deildin mun síðan hefjast á ný 31. júlí í Disney World í Orlando.

Sextán lið fara vanalega inn í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta en þegar leik var hætt þá voru sex önnur lið sex leikjum eða minna frá því að komast í úrslitakeppnissæti.

Það er því búist við því að þessi sex lið taki líka þátt í lokakaflanum þar sem liðin spila fyrst deildarleiki og fari svo í úrslitakeppni. Fyrstu leikir úrslitakeppninnar myndu þá vera leikir þar sem lið eru að spila um síðustu sætin inn í úrslitakeppnina.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.