Handbolti

Stefnir í að Þórir verði áfram með norska landsliðið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þórir Hergeirsson verður að öllum líkindum á hliðarlínu norska liðsins til ársins 2024.
Þórir Hergeirsson verður að öllum líkindum á hliðarlínu norska liðsins til ársins 2024. Getty/Baptiste Fernandez

Það virðist sem íslenski handboltaþjálfarinn Þórir Hergeirsson sé í þann mund að framlengja samning sinn við norska handknattleikssambandið en hann hefur þjálfað norska kvennalandsliðið með frábærum árangri frá árinu 2009. 

Þar áður var Þórir aðstoðarþjálfari svo alls hefur hann verið í teymi norska kvennalandsliðsins frá árinu 2001.

Norski miðillinn Verdens Gang heldur því fram að Þórir sé í þann mund að skrifa undir fjögurra ára framlengingu á samningi sínum. Samningsaviðræður hafa staðið yfir í rúmlega ár en núverandi samningur rennur út um áramótin. Nýr samningur mun gilda fram yfir Ólympíuleikana sem fram fara í París árið 2024.

„Það verður gengið frá samningnum í náunni framtíð,“ sagði Þórir í viðtali við Verdens Gang í gærkvöld.

Ólympíuleikarnir sem fram áttu að fara í Tókýó í sumar hefur verið frestað fram til næsta árs en Þórir er viss um að Evrópumótið sem verður spilað í Noregi og Danmörku í desember fari fram.

„Það skiptir máli að allur okkar undirbúningur miðist við að mótið fari fram. Við verðum að undirbúa okkur á þann veg að mótið verði spilað á tilsettum tíma,“ sagði Þórir einnig í viðtalinu.

Norska kvennalandsliðið hefur blómstrað undir stjórn Þóris og alls unnið til níu verðlauna á tólf stórmótum. Þar af eru tvö gull á HM ásamt einu á EM og öðru á Ólympíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×