Körfubolti

NBA deildin ræddi við KKÍ um að koma með NBA-liðin til Íslands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Giannis Antetokounmpo eru tvær af stærstu stjörnum NBA-deildarinnar og voru mögulega á leiðinni til Íslands áður en NBA ákvað að spila allt í Disney World.
LeBron James og Giannis Antetokounmpo eru tvær af stærstu stjörnum NBA-deildarinnar og voru mögulega á leiðinni til Íslands áður en NBA ákvað að spila allt í Disney World. Getty/Andrew D. Bernstein

Ísland átti möguleika á því að vera miðstöðin í endurkomu NBA-deildarinnar í körfubolta eftir COVID-19.

Eins og hjá öðrum atvinnumannadeildum í Bandaríkjunum hefur NBA deildin leitað leiða til að koma keppninni aftur af stað eftir að hætt var að spila vegna kórónuveirunnar.

Niðurstaðan liggur nánast fyrir því NBA deildin verður að öllum líkindum spiluð í Disney garðinum í Flórída-fylki.

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar þá áttu sér stað formlegar viðræður á milli forsvarsmanna NBA og Körfuknattleikssambands Íslands.

NBA íhugaði það að koma með liðin sín hingað til lands og leika hér hluta þeirra leikja sem eftir eru. Það hefði þýtt að liðin hefðu komið til Íslands með alla sína leikmenn, starfsmenn og þjálfara og gist á íslenskum hótelum.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, staðfesti í samtali við Íþróttadeild að formleg samskipti hefðu átt sér stað á milli sambandsins og NBA. Hann vildi ekki tjá sig um málin að öðru leiti.

Adam Silver, framkvæmdastjóri NBA, þykir framsækinn og nýjungagjarn. Það var hann sem tók þátt i viðræðunum við Körfuknattleikssamband Íslands.

Samband Íslands og NBA hefur í gegnum tíðina verið mjög gott. Stöð 2 var ein fyrsta sjónvarpsstöðin í heiminum fyrir utan Bandaríkin sem sýndi beint frá NBA.

David Stern heitinn, sem er af mörgum talinn vera mikilvægasti framkvæmdastjóri NBA, var mikill Íslandsvinur og áttu hann og Einar Bollason, sem lýsti NBA-leikjum á árunum áður í íslensku sjónvarpi, í góðu sambandi.

Hugmyndin um að halda leik áfram í NBA hafa snúið að því að liðin gisti á svipuðum stöðum í svokallaðri „búbblu“. Hugmyndin að vera með „búbluna“ á Íslandi var rædd formlega en að lokum ákvað stjórn NBA að fara ekki út fyrir bandaríska grundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×