Skoðun

Hvað kostar lýð­ræðið?

Björn Berg Gunnarson skrifar

Það mætti deila meira um hugtakið „óumdeilt“. Kannski hefur það ekki snúist jafn hressilega upp í andhverfu sína og orðin „kóngur“ og „meistari“ en þegar fólk er sagt óumdeilt verðum við að staldra stundarkorn við.

Réttur okkar til að deila um og tjá skoðun á fulltrúum okkar og leiðtogum er með þeim mikilvægari sem við eigum. Slíkan rétt hafa ekki allir og metur The Economist stöðu lýðræðis í heiminum nú þá verstu frá árinu 2006, en einungis 4,5% jarðarbúa búa við fullt lýðræði og ríflega þriðjungur býr í löndum þar sem almenningur hefur engin áhrif á hvernig þeim er stjórnað. Þar fær fólk ekki tækifæri til að láta með formlegum hætti reyna á fullyrðingar sumra um að leiðtogarnir séu óumdeildir. Þar þætti lýðræðissinnum væntanlega ekki tiltökumál að inn á kjörseðilinn læddist einn og einn kverúlant sem við fyrstu sýn virðist eygja litla sigurvon eða að hart væri í ári og kosningar dýrar. Slíkt þætti tæplega tilefni til að flauta kosningarnar af, enda rétturinn til að tjá pólitískar skoðanir sínar umtalsvert dýrmætari en svo.

Það er áhyggjuefni að hér á landi sé talað um að ástæða sé til að sleppa forsetakosningum, hvort sem ástæðan sem gefin er sé kostnaður, óheppilegir frambjóðendur eða vinsældir núverandi forseta. Það kostar vissulega 300-400 milljónir króna að kjósa í júní en það eru góð kaup, þrátt fyrir allt. Útfærsluatriði á borð við þann fjölda meðmæla sem safna þarf fyrir framboð er um að gera að ráðast í og laga að samtímanum áður en við göngum næst að kjörkössunum, en í stóra samhenginu skiptir það sáralitlu máli.

Við skulum ekki gefa okkur að almenn sátt sé um fulltrúa okkar og þeir séu óumdeildir. Skoðanakannanir og fullyrðingar annarra koma aldrei í staðinn fyrir raunverulega þátttöku í frjálsum kosningum. Vonandi verður það á einhverjum tímapunkti óumdeilt.

Höfundur er deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.