Skoðun

Þegar á reynir

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar

Þegar á reynir koma bestu einkenni Íslendinga sem þjóðar venjulega skýrt fram. Við gerum okkur grein fyrir því að við erum öll í þessu saman, við deilum öll kjörum og erfiðleikar eins eru erfiðleikar okkar allra.

Faraldurinn nú er fordæmalaus í seinni tíma sögu. Hraðar smitleiðir, áður óþekkt veira og vegna breyttrar heimsmyndar breiðist hún hraðar út en í fyrri faröldrum.

Aðgerðir sóttvarnalæknis og almannavarna hafa verið fumlausar, leiðbeiningar skýrar og öll inngrip verið úthugsuð og að bestu manna ráðum. En það er ljóst að það hvernig við sjálf bregðumst við skiptir líka gríðarlegu máli. Hvernig við hlítum fyrirmælum, tökum skynsamlegar ákvarðanir og hjálpumst að. Íslensk yfirvöld hafa gripið til ráðstafana sem eru yfirvegaðar, en krefjast þess af almenningi að hann taki þátt og sýni ábyrgð. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við alla þá sem tekið hafa leiðbeiningar um sóttkví og einangrun alvarlega og farið eftir þeim.

Verndum viðkvæmustu hópana

Það hefur komið fram að þeir sem eru viðkvæmastir í tengslum við faraldurinn eru þeir elstu og þeir sem hafa vissa langvinna sjúkdóma. Ekki vegna þess að þeir smitist frekar, heldur vegna þess að þeir eru líklegir til að þola sýkinguna verr ef þeir fá hana. Við þurfum sem samfélag að vera sérstaklega vakandi gagnvart þessum hópum, bæði hvað það varðar að aðstoða þá eftir föngum sem ekki komast á milli, hjálpa með aðföng og fleira. Við þurfum líka að vera sérstaklega passasöm að bera ekki sýkingar á milli. Við þurfum að gæta að handþvotti, spritta okkur og forðast óþarfa snertingar.

Notum tækni til samskipta þar sem það er hægt, jafnvel bara símann. Hringjum í ömmu, mömmu eða gamla frænku. Bjóðumst til að taka á okkur ytri samskipti eldra fólksins okkar, eins og innkaupaferðir og útréttingar. Förum í apótekið fyrir fólkið okkar. Sækjum póstinn. Bjóðum fram hjálp sem við getum flest svo auðveldlega veitt.

Með samstöðu og hjálpsemi, samhygð og nærgætni komumst við saman í gegnum þetta verkefni. Spilum þannig úr erfiðri stöðu að við styrkjum tengslin okkar inn á við og komum sterk út úr þessari krísu.

Höfundur er þingmaður VG.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.