Viðskipti innlent

Icelandair fækkar enn ferðum í mars og apríl

Atli Ísleifsson skrifar
Fjárhagsstaða Icelandair Group er sögð sterk og lausafjársstaða félagsins nemur rúmum 39 milljörðum króna í dag.
Fjárhagsstaða Icelandair Group er sögð sterk og lausafjársstaða félagsins nemur rúmum 39 milljörðum króna í dag. Vísir/Vilhelm

Tímabundið ferðabann bandarískra stjórnvalda til og frá Evrópu mun hafa veruleg áhrif á flugáætlun Icelandair á tímabilinu og mun félagið draga enn frekar úr framboði á flugi í mars og apríl, umfram það sem áður hefur verið tilkynnt. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair í Kauphöll rétt í þessu. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í morgun um ferðabann frá Schengen-ríkjunum í Evrópu, þar með talið Íslandi, til Bandaríkjanna næsta mánuðinn.

„Um 490 flugferðir eru áætlaðar til Bandaríkjanna á tímabilinu. Ljóst er að útbreiðsla COVID-19 veirunnar hefur veruleg áhrif á ferðalög um allan heim. Fjárhagsleg áhrif þessa á Icelandair Group eru enn óviss en eins og tilkynnt hefur verið um er félagið að greina mögulegar sviðsmyndir og mótvægisaðgerðir í ljósi stöðunnar.

Fjárhagsstaða Icelandair Group er sterk og lausafjársstaða félagsins nam rúmum 39 milljörðum króna (301,6 milljónir bandaríkjadala) í árslok 2019 og er á sama stað í dag,“ segir í tilkynningunni.

Á áætlun í dag

Icelandair sendi frá sér tilkynningu um 10 leytið með nánari útlistun á áhrifum ferðabannsins. Þar segir að allt flug hjá Icelandair verði á áætlun í dag og á morgun. 

„Þegar ferðabannið tekur gildi á laugardag, verður flug til eftirfarandi áfangastaða Icelandair í Bandaríkjunum á áætlun: New York (JFK og EWR), Chicago, Seattle og Washington DC en ferðabann gildir þá fyrir alla sem dvalið hafa á Schengen svæðinu, nema bandaríska ríkisborgara.

Þann 14.-16. mars verður öllu flugi til Boston, Minneapolis, Denver og Orlando aflýst. Flug frá Orlando og Denver laugardaginn 14. mars verður á áætlun. Öll flug til Evrópu eru á áætlun. Ferðabannið gildir ekki um fraktflutninga.

Flugáætlun félagsins í heild sinni er í stöðugri skoðun við þessar fordæmalausu aðstæður og er því breytingum háð. Allar breytingar á flugáætlun félagsins verða birtar á heimasíðu félagsins,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Trump lokar á ferðalög frá Evrópu til Bandaríkjanna

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna í þrjátíu daga frá og með miðnætti á föstudag vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×