Körfubolti

Arnar ætlaði að klófesta Inga Þór strax

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ingi Þór gerði KR að Íslandsmeisturum í fyrra en var sagt upp hjá vesturbæjarliðinu í vor.
Ingi Þór gerði KR að Íslandsmeisturum í fyrra en var sagt upp hjá vesturbæjarliðinu í vor. vísir/vilhelm

Arnar Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta, var staðráðinn í að næla í Inga Þór Steinþórsson eftir að honum var sagt upp störfum hjá KR.

„Arnar sendi bæði á mig og menn í kringum mig að ég yrði að hafa samband við hann strax. Hann ætlaði að ná mér um leið. Hann var mjög áhugasamur um að við myndum ná saman,“ sagði Ingi Þór í Sportinu í dag.

Hann var kynntur sem aðstoðarþjálfari Stjörnunnar ásamt Danielle Rodriguez í dag. Auk þess að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla mun Ingi Þór stýra drengja- og unglingaflokki hjá Stjörnunni.

Ingi Þór var síðast aðstoðarþjálfari hjá KR tímabilið 2008-09. Hann hlakkar til að takast á við þessa nýju áskorun og vinna með Arnari.

„Ég ætla að nota þetta sem áskorun og til að kveikja aðeins í mér. Arnar er ekki allra en er mjög áhugasamur um þá hluti sem hann er góður í og ég tel mig geta lært af því,“ sagði Ingi Þór. 

„Ég held að ég hafi líka fullt af hlutum sem hann er kannski ekki alveg nógu góður í. Og Dani kemur svo með þriðju víddina inn í þetta. Ég held að við eigum eftir að læra af hvort öðru og mynda gott teymi.“

Þjálfarateymi karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta.VÍSIR/KJARTAN ATLI

Áskorunin var í Stjörnunni

Ingi Þór hafði úr nokkrum tilboðum að velja og Þór á Akureyri vildi m.a. fá hann til að þjálfa karlalið félagsins. Stjarnan varð hins vegar fyrir valinu.

„Maður hefur lengi verið í samkeppni við Stjörnuna og þetta er stórt félag. Ég sagði við Arnar, eins og alla aðra, að ég ætlaði að sjá hvað væri í boði. Og ég gerði það,“ sagði Ingi Þór.

„Ég skoðaði alla möguleika og reyndi að meta hvað var best fyrir þjálfarann Inga Þór Steinþórsson. Ég var strax spenntur því ég fann að áskorunin sem ég vildi taka var klárlega þarna.“

Klippa: Sportið í dag - Ingi Þór vildi áskorunina í Garðabænum

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.